Auðun Freyr Ingvarsson, framkvæmdastjóri Félagsbústaða, segir fyrirtækið beita kapítalískum verkfærum til að ná fram sósíalískum markmiðum, en Félagsbústaðir eiga og reka leiguhúsnæði fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Fyrirtækið skilaði 10,8 milljarða hagnaði á árinu 2016, rúmum sex milljörðum meira en árið áður. Hagnaðurinn stafar nánast eingöngu af hækkun á fasteignamati eigna fyrirtækisins, en rekstrartekjur ársins 2016 náum um 3,3 milljörðum. Matsbreyting fjárfestingaeigna félagsins nam 10,9 milljörðum á árinu 2016 en var um fjórir milljarðar árið 2015.

„Við höfum kosið að verðmeta eignir okkar út frá fasteignamati,“ segir Auðun Freyr. Hann segir Félagsbústaði vera hefðbundið fyrirtæki í rekstri í öllum skilningi. Það njóti til að mynda ekki fyrirgreiðslu frá borginni. „Það eina sem er óvenjulegt við okkur er að eigandinn er opinber og við veljum leigutakana ekki sjálf. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar úthlutar þeim til okkar. Við erum hefðbundið fyrirtæki í öllum skilningi og höllum okkur að húsaleigulögum í öllum okkar samskiptum við leigutaka. Við erum fyrirtæki sem er að beita kapítalískum verkfærum til að ná fram þannig lagað sósíalískum markmiðum um að koma húsnæði yfir þá sem minnst mega sín,“ segir Auðun Freyr og vísar þar til skuldabréfaútgáfu fyrirtækisins í síðustu viku.

Rekið eins og hvert annað félag

Markmið fyrirtækisins segir Auðun Freyr vera að reka það eins og hvert annað leigufélag. „Við fáum engan styrk til rekstrarins. Einu tekjur okkar eru leigutekjur,“ segir Auðun Freyr. Leigutakar hjá Félagsbústöðum fá hins vegar margir hverjir stuðning frá Reykjavíkurborg til að greiða sína húsaleigu. Ef þeir greiða hana ekki hefur það hins vegar sömu áhrif og hver önnur vanskil til annarra leigufélaga. „Þá eru þeir komnir í skuld og vanefnd við samninga. Þá fer í gang sama ferli hér og alls staðar annars staðar.“ Félagið á og leigir í dag um það bil 2.500 íbúðir.

„Leigjendur eru ennþá fleiri en við teljum bara íbúðir,“ segir Auðun Freyr. Til viðbótar við að kaupa fullgerðar íbúðir byggja Félagsbústaðir sitt eigið húsnæði. „Við höfum byggt svokölluð sértæk búsetuúrræði, hugsuð fyrir fatlaða einstaklinga. Þetta er mjög sérhæft húsnæði sem þú kaupir ekki á markaði. Svo erum við á þessu ári trúlega að fara að byggja íbúðarhúsnæði. Eignasafnið hefur þó aðallega stækkað með því að kaupa eignir á markaði.“ Auðun Freyr segir miklar breytingar hafa orðið á fasteignamarkaði á síðasta ári. Fyrri hluta árs hafi fasteignamarkaðurinn verið mjög erfiður en mun betri seinni hluta árs. „Það er að léttast á markaði. Framboð er að aukast og verðið er líka orðið það hátt að fólk hugsar sig kannski tvisvar um áður en það hoppar á íbúðir. Við erum núna að fá betri eignir á hagstæðara verði en á fyrri hluta síðasta árs.“

Auk þess eiga Félagsbústaðir kauprétt að 20% íbúða sem til dæmis Bjarg byggir, en þær íbúðir eru aðallega litlar íbúðir. „Svo erum við að byggja sjálf og höfum keypt dálítið af Búseta.“ Íbúðum Félagsbústaða fjölgaði um á bilinu 50-60 á síðasta ári og um 120 árið áður. Stefnan er sett á frekari fjölgun á næstu árum.

Stóðu fyrir skuldabréfaútboði

Í síðustu viku stóðu Félagsbústaðir fyrir útboði á skuldabréfum sem verða skráð í Kauphöll. „Okkar fjármögnunarumhverfi er að breytast. 2016 voru samþykkt ný lög um stofnstyrki til félaga eins og okkar sem vilja byggja almennar íbúðir. Þá varð óhagstætt fyrir okkur að taka lán hjá Íbúðalánasjóði. Við leituðum því eftir fjármagni á markaði. Við lítum til þess að vera reglulegur útgefandi skuldabréfa á næstu árum. Við sjáum fram á að á næstu fimm árum þurfum við að fjármagna 20 til 25 milljarða,“ segir Auðun Freyr.

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .