Bandaríska mannerfðafræðifélagið hefur sæmt Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, æðstu viðurkenningu sinni, William Allan verðlaununum, sem bera nafn bandarísks læknis, sem var brautryðjandi í rannsóknum á erfðafræði mannsins og arfgengum sjúkdómum.

Í fréttatilkynningu frá Íslenskri Erfðagreiningu segir að verðlaunin hljóti sá vísindamaður, sem þykir hafa skilað stóru og yfirgripsmiklu framlagi til rannsókna í mannerfðafræði. Kári mun veita verðlaununum viðtöku á ársþingi samtakanna í Orlando í Flórída þann 18. október næstkomandi.

Í tilkynningu frá bandaríska félaginu segir að að Kári hafi stofnað Íslenska erfðagreiningu (ÍE) árið 1996 í því augnamiði að gera umfangsmiklar erfðarannsóknir á Íslandi. Með góðum tengslum við fólkið í landinu hafi ÍE fengið erfðaefni frá meir en 160.000 manns og lagt mikið af mörkum til aukinnar þekkingar á erfðafræði.

Bandaríska mannerfðafræðifélagið, sem var stofnað 1948, er talið standa fremst allra fagfélaga í erfðafræði mannsins í heiminum í dag. Félagsmenn eru nærri 8000 frá öllum heimshornum og koma úr röðum vísindamanna, háskólakennara, lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra sem tengjast mannerfðafræði.