Rekstrarfélag Stjórnarráðsins auglýsir nú eftir að kaupa rafbíl fyrir forsætisráðherra, sem afhenda skuli í byrjun desember næstkomandi. Strangar og ítarlegar kröfur eru gerðar til bifreiðarinnar, sem skal vera 100% rafdrifin, svört að lit, drífa 400 kílómetra og vera hámark 7,5 sekúndur að ná 100 kílómetra hraða, svo fátt eitt sé nefnt.

Auk þess bíls sem keyptur verður mun samningurinn fela í sér kauprétt á þremur eins bílum til viðbótar fyrir lok næsta árs, en ekki liggur fyrir hvaða ráðherrar fái þá bíla til afnota.

Er þetta í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar í nóvember síðastliðnum um að við reglubundna endurnýjun ráðherrabíla skuli hinir nýju bílar vera rafbílar. Allir ráðherrabílar eru nú í rekstri Rekstrarfélags Stjórnarráðsins, og geta færst milli ráðherra eftir þörfum.

Sérstakt tillit tekið til drægni og innanrýmis
Við mat tilboða verður fyrst og fremst tekið tillit til verðs, sem hefur 90% vægi, en þau 10% sem eftir standa skiptast til jafns niður á þrjá eiginleika bílsins, en neðri mörk þeirra eru ein mýmargra krafna sem gerðar eru til bílsins.

Sá fyrsti er drægni á bilinu 401 til 500 km, svo að hámarki fást 3,3% fyrir 500 km drægni eða meira, sá næsti er samanlagt fótarými fram- og aftursæta á bilinu 1931 til 2050 mm, og sá þriðji er höfuðrými aftursæta á bilinu 966 til 1050 mm.

2 tonn með hita í öllu og 360° myndavél
Auk ofangreindra krafna skal bíllinn meðal annars búinn sídrifi (fjórhjóladrifi), vera amk 2 tonn að þyngd, vera amk 4.650mm að lengd og 1.875mm að breidd, hafa amk 75 kW rafhlöðu, og hafa amk 440 kg burðargetu.

Fram- og afturrúður, hliðarspeglar, stýri og fram- og aftursæti skulu vera upphitanleg og sætin og stýrið leðurklædd, auk þess sem framsætin skulu vera rafdrifin. Þá er gerð krafa um lyklalaust aðgengi og ræsingu, og tíma- og fjarstýringu miðstöðvar, en sérstök miðstöð skal vera fyrir aftursæti sem stjórnað er þaðan.

Bakk- og 360° umhverfismyndavélar, nálægðarskynjarar framan og aftan, sjálfvirk neyðarhemlun og veglínuskynjari eru einnig skilyrði. Upptalningin er ekki tæmandi, en að lokum skal bíllinn að sjálfsögðu hafa fánafestingu.

Þá er svokölluð framrúðuglæja (e. Heads-up display) sögð æskileg, auk ljúflokunar hurða, skyggðra spegla og næturmyndavélar, en ekki er gerð krafa um slíkan búnað.

Að lokum skal framleiðandi hafa að lágmarki 10 ára reynslu af framleiðslu bifreiða, og seljandi vera með viðgerðarþjónustu hér á landi sem samþykkt er af framleiðanda. Síðarnefnda krafan útilokar eins og staðan er í dag rafbíla af gerðinni Tesla, sem vinnur nú að opnun útibús hér á landi, en hefur ekki opnað enn.

Kröfur eins hóflegar og unnt var
Í svari Stjórnarráðsins við fyrirspurn um málið kemur fram að „við framsetningu á kröfum í útboðinu var fyrst og fremst horft til krafna um drægni sem og öryggiskrafna í samráði við ríkislögreglustjóra. Einnig voru settar kröfur um innanrými og fleira, en þess gætt að hafa þær eins hóflegar og unnt er með það að markmiði að sem flestar tegundir rafbíla geti komið til álita.“