Það er mikilvægt að stjórnvöld styðji við núverandi stefnu stjórnar Landsvirkjunar sem felst í því að fara eingöngu út í þau verkefni sem byggja á arðsömum orkusölusamningum – en láti ekki stjórnast af skammtíma hagsmunum.

Þetta sagði Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, í erindi sínu á ársfundi Landsvirkjunar sem nú stendur yfir.

Katrín fjallaði um stöðu ríkissjóðs í erindi sínu og sagði Landsvirkjun vera eitt mikilvægasta opinbera fyrirtæki landsins. Þá vék Katrín að þeim málum sem snúa að hinni svokölluðu rammaáætlun og að stigin hefðu verið stór skref í þá átt að ná samkomulagi um þau svæði sem má virkja annars vegar eða friða hins vegar.

Katrín sagði að mikil orka væri til í landinu sem hægt væri að nýta og þjóð sem væri rík að auðlindum ætti að kanna öll þau tækifæri sem gefast til að nýta þær auðlindir og auka hagsæld í landinu. Þannig væri t.d. nauðsynlegt að kanna möguleika þess að leggja sæstreng til að selja orku úr landi, en sú vinna er nú þegar hafin.

Þá vék Katrín að aðstæðum á Norðausturlandi sem mikið hefur verið fjallað um síðustu misseri og ár. Hún sagði að aðstæður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hefði tafið uppbyggingu á svæðinu en mikilvægt væri að byggja upp innviði þess landshluta, enda yrði eftirleikurinn auðveldari þegar kemur að stóriðjuuppbyggingu og orkunýtingu á svæðinu.