Bandarísk samkeppnisyfirvöld munu taka sér lengri tíma en áætlað var við til að fara yfir kaup bandaríska netsölurisans á smásölukeðjunni Whole Foods samkvæmt frétt BBC. Eins og greint var frá í síðasta mánuði festi Amazon kaup á Whole Foods fyrir 13,7 milljarða króna. Á þeim tíma greindi Whole Foods frá því að kaupin myndu ganga í gegn á seinni hluta þessa árs en hefur nú sagt að kaupin gætu tafist fram í maí á næsta ári.

Tafirnar koma til af því að þingmenn Demókrataflokksins óskuðu eftir því að samkeppnisyfirvöld myndu skoða betur hvaða áhrif kaupin myndu hafa á val neytenda, þá sérstaklega á svæðum þar sem færri valkostir væru í boði.

Þrátt fyrir að kaupin verði tekin til nánari athugunar búast flestir við að þau gangi í gegn. Hafa greiningaraðilar bent á hugsanlegan ávinning neytenda af lægra verði auk nýjunga í afhendingu á vörum sem samruni fyrirtækjanna muni hafa í för með sér. Þá hefur einnig verið bent á það að sameinað fyrirtæki muni standa fyrir harðri samkeppni frá smásölurisum á borð við Wal-Mart, Target og fleirum.

Það þarf þó ekki að koma mikið á óvart að fyrirhugaður samruni hafi náð athygli stjórnmálamanna. Samkeppnismál eru stór hluti af efnahagsstefnu Demókrataflokksins. Þá hefur forseti Bandaríkjanna, Donald Trump sagt að stór samkeppnisvandamál séu í kring um Amazon.

Samkvæmt tilkynningu Whole Foods til bandaríska fjármálaeftirlitsins mun Amazon skila aftur inn gögnum vegna samrunans til samkeppnisyfirvalda í þessari viku. Mun það verða til þess að lengja frest stjórnvalda til að skila áliti sínu á samrunanum.