Skrifstofa lögmannsstofunnar LOGOS í Lundúnum fagnar um þessar mundir fimmtán ára afmæli. LOGOS, sem er elsta lögmannsstofa Íslands, varð fyrsta íslenska stofan til þess að opna skrifstofu í bresku höfuðborginni. Guðmundur J. Oddsson hefur stýrt skrifstofunni í Lundúnum frá opnun og starfar sem enskur „solicitor" en hefur jafnframt íslensk lögmannsréttindi.

Hann segir að ákveðið hafi verið að opna skrifstofuna á sínum tíma þar sem margir viðskiptavinir stofunnar höfðu komið sér upp skrifstofum í Lundúnum. Því var mikilvægt fyrir LOGOS að koma sér upp starfsstöðvum þar. Þá voru umsvif erlendra viðskiptavina LOGOS á Íslandi hratt vaxandi og var þeim að mestu stýrt frá Lundúnum.

Guðmundur segir að verkefni stofunnar hafi frá upphafi verið fjölbreytt en flest hafi verið á sviði fyrirtækjaráðgjafar. Kaup og sölur á erlendri grundu og fjármögnun hafi verið rauði þráðurinn. „Þegar maður horfir til baka til fyrstu áranna í London þá stendur upp úr hvað umfang viðskiptanna var mikið, enda aðgangur íslenskra fyrirtækja að fjármagni nánast óendanlegur. Yfirtakan á Actavis Group hf. árið 2007 eru væntanlega stærstu einstöku viðskipti íslensks viðskiptalífs frá upphafi. Svo var auðvitað ómetanlegt að hafa árið 2006 hjálpað hinum sanna heiðursmanni, Björgólfi Guðmundssyni, að kaupa West Ham United og enda svo með að sitja í stjórn félagsins í kjölfarið."

Guðmundur segir að á þessum tíma hafi verið takmörkuð þekking og reynsla í íslenskri lögmannsstétt til að sinna alþjóðlegum viðskiptum af þeirri stærðargráðu sem þá var orðin algeng. Hafi LOGOS því ákveðið að sækja þá þekkingu með því að ráða til sín enska lögmenn frá bestu alþjóðlegu lögmannsstofunum. „Til að byggja sterkt teymi þá þarf fyrst að ráða einhvern sem allir geta horft upp til og vilja vinna með. Þess vegna réðum við fyrst Ann Grewar í janúar 2007. Hún hefur sterka ferilskrá, yfirburðanemandi frá Oxford og vann í mörg ár hjá einni fremstu lögmannsstofunni."

Hrunið breytti landslaginu

Guðmundur segir að efnahagshrunið árið 2008 hafi leitt af sér breytt verkefni. „Ég segi stundum, í meira gamni en alvöru, að fyrir hrun þá fékk ég ekki ein einustu tilmæli um að selja fyrirtæki og við gerðum fátt annað en að kaupa fyrirtæki. Svo í kjölfar hruns tóku við verkefni þar sem við vorum m.a. að hjálpa okkar viðskiptavinum út úr erfiðleikum."

Auk þess hafi LOGOS í Lundúnum komið að endurskipulagningu stórra fyrirtækja. „Novator hefur lengi verið stór viðskiptavinur hjá okkur og við þjónustuðum einnig félög á borð við Bakkavör, FL Group og Milestone. Flestir viðskiptavinir okkar fóru í gegnum einhvers konar endurskipulagningu. Það voru oft gríðarlega flókin verkefni. Á þessum tíma var byrjað að selja eignir og þar kemur hin hliðin á brandaranum, þar sem ég gerði ekkert annað en að selja eignir í nokkur ár eftir hrun," segir Guðmundur kíminn.

„Í hruninu vorum við einnig að vinna mikið með erlendu kröfuhöfunum að vinna úr þeirra skuldastöðu á Íslandi. Ég vann einnig fyrir íslenska ríkið í tengslum við neyðarlánin og samskipti við bresk stjórnvöld í tengslum við Icesave, og var hluti af fyrstu íslensku samninganefndinni sem hafði þau einföldu skilaboð til bresku sendinefndarinnar að íslenska ríkið bæri enga ábyrgð á Icesave."

Að sögn Guðmundar áttu sér stað ákveðin vatnaskil árið 2012 er flestum verkefnum tengdum hruninu var lokið. „Þá voru margir viðskiptavinir okkar, líkt og t.d. Novator, búnir að endurskipuleggja sig. Það er í raun ótrúlegt hvað þeir voru fljótir að ná vopnum sínum á ný. Björgólfur Thor og félagar í Novator njóta mikils trausts lánveitenda um allan heim enda leystu þeir farsællega úr öllum þeim vandamálum sem þeir stóðu frammi fyrir og gerðu upp allar sínar skuldir án afskrifta.“

„Í gegnum árin hefur okkur einnig tekist að byggja upp tengsl við erlenda viðskiptavini sem eru ótengdir Íslandi," segir Guðmundur en erlendir viðskiptavinir telja nú um þriðjungi af veltu LOGOS í Lundúnum. Þá hafi skrifstofan veitt íslenskum lögmönnum dýrmæta starfsreynslu erlendis.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .