Viðskipti hafa átt sér stað með bréf Play að undanförnu á gengi sem samsvarar um 22 til 23 krónum á hlut samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Það er nokkuð yfir útboðsgengi hlutafjárútboðs félagsins sem hefst á fimmtudaginn. Þar verður verðið 18 krónur á hlut fyrir áskriftarleið A sem nær til boða undir 20 milljónum króna og 18 til 20 krónur á hlut í áskriftarleið B fyrir boð yfir 20 milljónum króna. Verð í viðskiptunum er því allt að 28% yfir verðinu í áskriftarleið A og allt að 15% yfir hærra verðbili áskriftarleiðar B.

Til stendur að safna um fjórum milljörðum króna fyrir hátt í þriðjungshlut hlut í félaginu í hlutafjárútboðinu. Þá eiga viðskipti að hefjast með bréf félagsins á First North markaðnum þann 9. júlí.

Play lauk 47 milljóna dollara, um 7 milljarða króna, hlutafjárútboði í apríl þar sem gengið nam tæpum 16 krónum á hlut. Meðal þátttakenda í útboðinu voru fjárfestingarfélögin Stoðir, Fiskisund og Brimgarðar og lífeyrissjóðirnir Birta og Lífsverk.

Play hefur sett sér markmið um að skila hagnaði strax á næsta ári og auka umsvif sín ár frá ári fram til ársins 2025. Jakobsson Capital verðmat bréf Play metið á 31 krónu á hlut þó að bent væri á að margir óvissuþættir væru til staðar, til að mynda hvað varðar samkeppnisumhverfið, ýmsa kostnaðarliði og eftirspurn eftir flugferðum í ljósi heimsfaraldursins.