Bandaríski fjárfestingarbankinn Morgan Stanley hefur fest kaup á internetverðbréfafyrirtækinu E-Trade fyrir 13 milljarða dollara en tilkynnt var um kaupin í gær. Samkvæmt frétt Wall Street Journal er um að ræða stærstu yfirtöku bandarísks banka frá hruni.

Viðskiptin þykja til marks um að Morgan Stanley ætli sér að ná í meira mæli til venjulegs fólks en viðskiptavinir bankans hafa hingað til hafa meira og minna verið efnamiklir einstaklingar og fyrirtæki.

Viðskiptavinir E-trade ríflega 5 milljón talsins en eignir þeirra hjá fyrirtækinu nema um 360 milljörðum dollara auk þess sem innlán hjá fyrirtækinu nema um 56 milljörðum dollara. Fjármálaráðgjafar Morgan Stanley eru í dag um 15.500 talsins en innistæður á verðbréfareikningnum hjá bankanum eru að meðaltali 175 þúsund dollarar á meðan meðalstærðin hjá E-Trade er um 69 þúsund dollarar. Með samrunanum sem gert er ráð fyrir að ljúki á fjórða ársfjórðungi þessa árs munu eignir viðskiptavina Morgan Stanley nema yfir 3.000 milljörðum dollara.

Samkvæmt WSJ hefur ríkt ákveðinn óvissa með framtíð E-trade frá því í nóvember þegar helstu samkeppnisaðilar fyrirtækisins, Charles Schwab og TD Ameritrade, sameinuðust. Mikil samkeppni hefur ríkt í milligöngu með verðbréfaviðskiptum en skömmu áður en samruninn átti sér stað lækkaði Charles Schwab þóknun sína vegna verðbréfaviðskipta niður í núll en Fidelity Investments gerði einnig það sama í kjölfarið. Helsta gagnrýnin á kaupum Morgan Stanley felst einmitt í efasemdum um þá stefnu að kaupa fyrirtæki í miðlun verðbréfa þar sem viðskiptavinir þeirra vilja helst ekki borga neitt fyrir að eiga viðskipti.

Kaupverð E-Trade verður greitt með hlutabréfum í Morgan Stanley. Eftir að fréttir af yfirtökunni bárust í gær hækkuðu hlutabréf E-Trade um 21,8% á meðan hlutabréf Morgan Stanley lækkuðu um 4,5%.