Framtakssjóðurinn Umbreyting slhf., í rekstri Alfa Framtaks, mun kaupa 26% hlut í Nordic Visitor samhliða kaupum ferðaskrifstofunnar á Iceland Travel af Icelandair. Fjárfesting Umbreytingar, í gegnum sjóðinn AU1, er þó háð því að Samkeppniseftirlitið heimili kaup samruna Nordic Visitor og Iceland Travel. Þetta kemur fram í samrunaskrá sem SKE hefur birt en stofnunin óskar nú eftir athugasemdum frá hagaðilum vegna samrunanna tveggja.

Þegar tilkynnt var um kaup Nordic Visitor á Iceland Travel fyrir rúmum mánuði kom fram að Alfa Framtak myndi fjármagna viðskiptin. Heildarvirði (e. enterprise value) Iceland Travel er metið á 1,4 milljarða króna í kaupsamningnum en þar af eru 350 milljónir háðar frammistöðutengdum mælikvörðum út árið 2023.

Stærstu hluthafar Umbreytingar er Lífeyrissjóður verslunarmanna með 15% hlut, LSR með 14,3% hlut og Snæból ehf. með 11,1% hlut.

Nordic Visitor starfar á innlendum og erlendum markaði fyrir ferðaskrifstofur sem sjá um skipulagðar alferðir til Norður-Evrópu, þ. á m. Íslands, annarra Norðurlandaríkja og Bretlandseyja. Í byrjun síðasta árs keypti Nordic Visitor ferðaskrifstofuna Terra Nova, sem sér um skipulagðar alferðir til evrópskra endursöluaðila á ferðum til Íslands, Noregs og Finnlands. Þá selur Terra Nova einnig ferðir beint til neytenda undir vörumerkinu Iceland Tours.

Rekstrartekjur Nordic Visitor drógust verulega saman á síðasta ári og námu 548 milljónum króna, samanborið við 4,1 milljarð árið 2019. Tekjur Terra Nova drógust saman um rúmlega 80% og námu 308 milljónum á síðasta ári. Tekjusamdráttur Iceland Travel var um 85% en tekjur félagsins námu 1,2 milljörðum á síðasta ári samanborið við 8,5 milljarða árið áður.

Nordic Visitor er í 51,7% eigu Ásbergs Jónssonar, framkvæmdastjóra og stofnanda félagsins. Davíð Harðarson stjórnarformaður fer með 15% hlut.

Samruninn hafi jákvæð samkeppnisleg áhrif

Líkt og kom fram að ofan leitar óskar samkeppniseftirlitið eftir sjónarmiðum vegna kaupa Nordic Visitor á Iceland Travel og vegna kaupa AU1, sjóðs í eigu Umbreytingar, á fjórðungshlut í Nordic Visitor.

Í samrunaskrá kemur fram að ferðaskrifstofurnar starfi í harðri samkeppni á markaði með mjög takmörkuðum aðgangshindrunum, að mati samrunaaðila. Ferðaskrifstofurnar eiga í samkeppni við erlendar skrifstofur og stórfyrirtæki á borð við Booking, Tripadvisor, Expedia og Viator.

Þá telja fyrirtækin að samkeppnisleg áhrif á samrunanum séu lítil eða jafnvel jákvæð þar sem Iceland Travel verði ekki lengur hluti af Icelandair samstæðunni.

„Samrunaaðilar telja að samkeppnisleg áhrif samruna Nordic Visitor og Iceland Tracvel „séu hverfandi, ef nokkur“. Samruninn hindri ekki samkeppni á þeim virka markaði þar sem þau starfa, enda fari því fjarri að til verði markaðsráðandi staða, eða önnur slík staða sem raskað geti samkeppni á markaði. Þá telja samrunaaðilar að samruninn kunni, ef eitthvað, að hafa jákvæð samkeppnisleg áhrif, með því að Iceland Travel verði ekki lengur hluti af samstæðu Icelandair.“