Sjóðir á vegum Blackrock og Credit Suisse munu kaupa um 3,4-3,7% hlut í Marel fyrir um 14 milljarða króna, samkvæmt útboðsgögnum sem tæknifyrirtækið hefur birt í tengslum við útboð í Kauphöllinni í Amsterdam.

Áætlað er að tilkynnt verði um endanlegt útboðsgengi þann 6. júní og viðskipti hefjist með bréfin daginn eftir.

Samtals verða 100 milljón nýir hlutir boðnir til sölu, sem samsvarar um 15% af útgefnu hlutafé, og eru samtals um 47-54 milljarða króna virði samkvæmt leiðbeinandi verðbili útboðsins. Þar af nema skuldbindingar Blackrock og Credit Suisse um 26,2-28,6% útboðshlutanna.

Tilboðstímabil lokaðs útboðs hófst klukkan 7 nú í morgun, og mun ljúka fimmtudaginn 6. Júní klukkan 11. Áskriftartímabilið hófst á sama tíma og því mun ljúka miðvikudaginn 5. júní klukkan 15:30.

„Í dag stígum við enn eitt skref í áttina að skráningu í Euronext kauphöllina í Amsterdam, sem fyrirhuguð er þann 7. júní. Marel er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Skráning hlutabréfa félagsins í alþjóðlega kauphöll á borð við Euronext er eðlilegt næsta skref í framþróun félagsins. Tvíhliða skráning mun enn fremur styðja við vaxtarmarkmið Marel um 12% árlegan meðalvöxt tekna á tímabilinu 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, ásamt samstarfi við lykilaðila og kaupum á fyrirtækjum. Marel er staðsett í miðju þeirra drifkrafta sem styðja við vöxt á þeim spennandi vaxtarmarkaði sem félagið starfar á. Sýn okkar er eftir sem áður að hjálpa viðskiptavinum okkar að mæta vaxandi eftirspurn neytenda eftir hágæða matvælum sem framleidd eru á hagkvæman og sjálfbæran hátt.” er haft eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Marel, í tilkynningunni.