Bandaríska fjárfestingar- og fasteignaþróunarfélagið JL Properties erum þessar  mundir að ganga frá kaupunum á eignarhaldsfélaginu Keahótelum, einni stærstu hótelkeðju landsins. Þetta kemur fram í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins , en þar segir að gera má ráð fyrir að kaupsamningurinn verði tilbúinn á allra næstu dögum. Keahótel reka meðal annars Hótel Borg og Apótek Hótel í Reykjavík. Heildarkaupverðið á keðjunni verður í kringum sex milljarðar króna.

Óvíst er þó hvort að fjárfestingafélagið Varða Capital hafi einnig aðkomu að viðskiptunum og kaupi þá um fjórðungshlut. Eigendur Varða Capital eru Grímur Garðarsson, Jónas Hagan Guðmundsson og Bandaríkjamaðurinn Edward Mac Gilivray Schmidt. Fjárfestingahópur þeirra kom meðal annars að fjármögnun lúxushótelsins við Hörpu og er í hópi stærstu hluthafa Kviku banka.

Horn II, framtakssjóður er meðal þeirra sem selur hlut sinn í Keahótelum, en félagið keypti fyrir þremur árum 60 prósenta hlut í keðjunni. Hluthafar félagsins settu það í söluferli í byrjun þessa árs. Erlendir fjárfestar sýndu hótelkeðjunni mestan áhuga. Kaupandinn, JL Properties, er stærsta fasteignaþróunarfélagið í Alaska og hefur meðal annars komið nálægt fjárfestingu í hótelverkefnum í Utah og Flórída. Stjórnarformaður og forstjóri JL Properties er Jonathan B. Rubini en hann er ríkasti maður Alaska.