Áætla má að gagnaverin hér á landi muni kaupa rafmagn fyrir allt að fjóra milljarða króna á þessu ári. Í nýútkominni skýrslu  KPMG um gagnaversiðnaðinn hér á landi er áætlað að raforka sem gagnaver noti hér á landi aukist úr 34 MW í 125 MW milli áranna 2017 og 2018 eða nær fjórfaldist. Þá er ráðgert að gagnaverin kaupi 1.089 gígavatnsstundir af raforku í ár mið- að við 300 gígavatnsstundir í fyrra. Ekki er gefið upp hverjar tekjurnar af raforkusölu séu, en í skýrslunni er bent á verðskrá Landsvirkjunar. Heildsöluverð Landsvirkjunar á einni  megavattstund er 43 dollarar eða 4.240 krónur. Landsvirkjun hefur hins vegar gefið út að veittur sér afsláttur af listaverði á fyrstu árum nýrra raforkusamninga. Sé afslátturinn á bilinu 10% til 20% má áætla að heildartekjur af raforkusölu til gagnvera sé á bilinu 3,4 til 4,2 milljarðar króna. Hér er miðað við að önnur íslensk orkufyrirtæki á borð við  HS  Orku og Orku náttúrunnar, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, bjóði gagnaverum sambærileg verð fyrir raforkuna.

Gagnaver noti 9% af allri raforku á Íslandi

Í skýrslu KPMG  er því spáð að orkunotkun gagnavera  aukist í 1.585 gígavattstundir árið 2020. Miðað við sömu verðforsendur má áætla að raforkusalan til gagnavera geti numið fimm til sex milljörðum króna árið 2020. Ef spáin rætist mun raforkusala til gagnavera hafa aukist úr rétt undir 2% af raforkunotkun Íslands á síðasta ári í nær 9% árið 2020. Áður hefur komið fram að búist sé við að gagnaver muni nota meira rafmagn en öll heimili á Íslandi samanlagt á þessu ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .