Hampiðjan gekk í dag frá kaupum á 80% hlut í skosku félögunum Jackson Trawl Limited og Jackson Offshore Supply Limited í Peterhead í Skotlandi. Kaupverðið er 9,7 milljónir evra, um 1,3 milljarðar króna. Arion banki lánar 6,4 milljónir evra, um 820 milljónir en afgangurinn er greiddur með handbæru fé frá Hampiðjunni.

Félagið hefur verið í eigu og stýrt af sömu fjölskyldunnar frá stofnun þess árið 1962. Bræðurnir Mark og Stephen Buchan hafa stjórnað fyrirtækjunum undanfarna áratugi af mikilli eftir að faðir þeirra Arthur Buchan dró sig í hlé vegna aldurs. Afi bræðranna, John Buchan, stofnaði fyrirtækið fyrir 58 árum. Bræðurnir munu áfram stýra fyrirtækjunum samkvæmt tilkynningu frá Hampiðjunni.

Jackson Trawl selur veiðarfæri á Bretlandseyjum en Jackson Offshore selur einkum kaðla, lyftistroffur og járnavöru til olíuiðnaðarins í Skotlandi.

Hampiðjan segir töluverð samlegðaráhrif eru af kaupunum fyrir Hampiðjuna og sem munu koma fram á þessu ári og þeim næstu.  „Viðskiptavinir beggja félaganna í Skotlandi munu njóta góðs af kaupum Hampiðjunnar því með þeim fá félögin aðgang að tækniþekkingu og vörum Hampiðjunnar í veiðarfærum og sérútbúnum vörum fyrir olíuiðnaðinn,“ segir í tilkynningunni.

Engin langtímalán eru í skosku félögunum um áramótin en skammtímaskuldir þeirra námu 1,2 milljónum evra. Heildareignir félaganna námu 8 milljónum evra og þar af er handbært fé að fjárhæð rúmar 4,3 milljónir evra. Áætluð velta félagsins á árinu 2020 er um 7,2 milljónir evra og áætluð EBITDA nemur um 1,6 milljónum evra.

Með trygga stöðu óháð Brexit

„Með þessum kaupum styrkir Hampiðjan stöðu sína enn frekar við N-Atlantshaf sem er mikilvægasti markaður samstæðunnar.  Innan landhelgi Stóra-Bretlands eru auðug fiskimið þar sem verðmætustu tegundirnar eru makríll, kolmunni og sandsíli en skip frá Evrópubandalaginu hafa veitt meirihluta aflans undanfarin ár.  Það gæti breyst með samningum í kjölfar Brexit en Hampiðjan hefur hins vegar með þessum kaupum tryggt stöðu sína óháð því á hvorn veginn sem þeir samningar fara í framtíðinni,“ segir í tilkynningu frá Hampiðjunni.