Norska fiskeldisfyrirtækið Måsøval Fiskeoppdrett AS hyggst kaupa 55,6% hlut í Ice Fish Farm sem er móðurfélag Fiskeldis Austfjarða. Sömuleiðis hyggst Måsøval selja sinn hluta í Norway Royal Salmon (NRS) sem er stærsti hluthafinn í íslenska fiskeldisfyrirtækinu Arctic Fish, að því er segir í fréttatilkynningu.

Greint er frá því að mikið samstarf sé á milli Laxar Fiskeldi, sem er í eigu Måsøval, og Ice Fish Farm. Á slíkt samstarf meðal annars að tryggja betri framleiðslu og samlegðaráhrif. Til stendur að skoða nánara samstarf milli áðurnefndra aðila.

Laxar Fiskeldi er með starfsleyfi á fjórum eldissvæðum í utanverðum Reyðarfirði. Ice Fish Farm, móðurfélag Fiskeldis Austurfjarðar, hefur tryggt sér leyfi til þess að framleiða tæplega 21 þúsund tonn á Austurströnd Íslands. Enn fremur hefur téð félag sótt um leyfi fyrir tæplega 17 þúsund tonna framleiðslu til viðbótar.

Måsøval hefur verið hluthafi í NRS í yfir 25 ár. NRS er í dag bæði með starfsemi á Íslandi og í Noregi. Måsøval varð fyrst hluthafi í íslensku fiskeldisfyrirtækið árið 2016 í gegnum dótturfélag sitt Laxar Fiskeldi ehf. Greint er frá því að Måsøval hafi mikla trú á fiskeldi hérlendis í framtíðinni.