Aðkoma þýska bankans Hauck & Aufhäuser að kaupum á 45,8 prósenta eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands í byrjun árs 2003 var einungis „reynd að nafni til“ að mati sérstakrar rannsóknarnefndar Alþingis. Þetta kemur fram í bréfi rannsóknarnefndarinnar, sem að Fréttablaðið hefur undir höndum og fjallar um.

Þar segir jafnframt að kaupin hafi verið fjármögnum í gegnum aflandsfélag á vegum Kaupþings. Samkvæmt gögnunum segir: „að fjárfesting Hauck & Aufhäuser í gegnum Eglu hf., og síðar með sama hætti eignarhald á, hlutum í Búnaðarbankanum [...] hafi aðeins verið til málamynda og tímabundið,“ bankanum hafði jafnframt verið tryggt skaðleysi af þátttöku í viðskiptunum af því er kemur fram.

Bréf rannsóknarnefndarinnar er frá 13. mars og þar segir að gögn og upplýsingar nefndarinnar „sýna að dagana áður en skrifað var undir kaupsamning Eglu hf. og annarra lögaðila (það er hins svonefnda S-hóps) um kaup á hlut íslenska ríkisins í Búnaðarbankanum hf. 16. janúar 2003, stóð hópur manna að gerð tveggja samninga varðandi hluti Hauck & Auf­häuser í Eglu hf. á milli annars vegar Hauck & Aufhäuser og hins vegar aflandsfélagsins Welling & Partners Limited, skráðu á Bresku-Jómfrúareyjum, sem Kaupþing hf. útvegaði til að standa að samningnum.“

Í svarbréfi Ólafs Ólafssonar til nefndarinnar, er fullyrt að engum blekkingum hafi verið beitt gagnvart ríkinu, þegar hluturinn í Búnaðarbanka var keyptur og að S-hópurinn hafi boðið hæsta verð fyrir hlutinn og að ríkið hafi fengið kaupverðið greitt að fullu. Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður Kaupþings, segir að honum reki ekki minni til aflandsfélagsins Welling & Partners Limited, sem að Kaupþing hafi útvegað til að standa að samningum sem gerðir hafa verið vegna viðskiptanna.

Hann fullyrði jafnframt að hann naut ekki ávinnings af þeim viðskiptum sem lýst er í bréfinu.