Fjárfestingarfélag Bretans Edmund Truell, DC Renewable Energy AG, greiðir um 9 milljarða króna fyrir 12,7% hlut fjárfestingarsjóðsins ORK í HS Orku að því er Fréttablaðið greinir frá.

Því til viðbótar er 54% hlutur kanadíska orkufyrirtækisins Innergex nú í söluferli, eins sagt var frá í fréttum í lok síðasta mánaðar. Frestir til að skila inn tilboðum í þann hluta runnu út síðastliðinn föstudag, en kanadíski bankinn Bank of Montreal og íslenska ráðgjafafyrirtækið Stöplar Advisory eru ráðgjafar við söluferlið.

Ein verðmætasta eign HS Orku er 30% hlutur í Bláa lóninu, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær er félag Gríms Sæmundsen, forstjóra Bláa lónsins mögulega að auka við hlut sinn í Hvatningu, sem á 40% í Bláa lóninu. Jarðvarmi, félag í eigu lífeyrissjóða, sem á 33,4% í HS Orku, hafnaði sölu á hlutnum í Bláa lóninu sem hefði metið markaðsvirði baðstaðarins á 37 milljarða.

Buðu mun hærra en aðrir

Í tilboði DC Renewable Energy í 12,7% hlutinn, býður félagið rúmlega 8 krónur fyrir hvern hlut í HS Orku. Það er talsvert hærra en önnur tilboð sem bárust. Til viðbótar veltur 1 af áðurnefndum 9 milljörðum á afkomu HS Orku, en félagið kaupir hlutafé að nafnvirði 997 milljónir.

Meirihluti andvirðis sölunnar, eða um 5 milljarðar fer í að greiða upp skuldabréf ORK sem gefið var út vegna kaupa sjóðsins á Magma skuldabréfinu svokallaða af Reykjanesbæ. Það sem eftir verður, mögulega allt að fjórir milljarðar renna svo til Reykjanesbæjar.

Meta félagið á 63 milljarða

Krafa sveitarfélagsins á sjóðinn nam 1.332 milljónum króna samkvæmt síðasta ársreikningi í lok ársins 2017, og gæti því bókfærður hagnaður þess numið um 2,8 milljörðum króna vegna sölunnar. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá var markaðsvirði HS Orku metið á tæpa 50 milljarða í sumar, en m.v. þetta tilboð er markaðsvirðið um 63 milljarðar.

Áðurnefnt félag lífeyrissjóðanna, Jarðvarmi, hefur forkaupsrétt á hlutum í HS Orku. Lögðu sjóðirnir tæplega 5 milljarða til félagsins með auknu hlutafé í upphafi árs 2012 og nam heildarfjárfesting Jarðvarma á einu ári þá 13 milljörðum í orkufélaginu. Hefur Jarðvarmi frest fram í byrjun næsta mánaðar til að ákveða hvort það hyggist bæta við sig þessum 12,7% hlut með því að nýta forkaupsréttinn.