Í dag var undirritað samkomulag um gerð kaupsamnings á milli Regins hf. og GAMMA Capital Management hf., fyrir hönd fasteignasjóða í stýringu,  um kaup fasteignasjóða GAMMA á 50% hlut í félaginu 201 Miðbær ehf. Með sölunni hefur Reginn selt alla hluti sína í félaginu en mótaðili sjóða GAMMA  með eignarhald á 50% hlut, verði af sölunni, verður áfram Smárabyggð ehf. Samkomulag er með ýmsum fyrirvörum meðal annars um samþykki stjórnar Regins að því er kemur fram í fréttatilkynningu til Kauphallarinnar.

Félagið 201 Miðbær er eigandi byggingaréttar á lóðum sunnan Smáralindar í hverfinu sem gengur undir nafninu Smárabyggð. Byggingarmagn á lóðunum tveimur er alls 30.622 „brúttó“ íbúðarfermetrar. Söluverð á hlut Regins í félaginu er 1.236 milljónir króna.

„Með sölunni nú á hluta byggingaréttar á svæðinu er verið að innleysa virði sem liggur í byggingarrétti á lóðunum við Smáralind.  Það er mat félagsins að nú sé réttur tími til að selja verkefnið af tveimur ástæðum. Mikil eftirspurn er eftir skipulögðum vel staðsettum íbúðabyggðum og nú eru sterkir fagaðilar (fjárfestar og uppbyggingaraðilar) að leita að hentugum byggingarverkefnum sem hægt er að hefja framkvæmdir við fljótt,“ segir í tilkynningunni.

Forsenda þess að selja verkefnið frá Reginn nú er að uppbygging verkefnisins styrki Smáralind og svæðið í heild en Smáralind er verðmætasta eign Regins. Hluti af samkomulagi milli aðila er að tryggja að útfærslur, framkvæmdir og uppbygging verkefnisins verði í sem mestri sátt við starfsemi og athafnalíf á svæðinu. Einnig er samkomulagið hagfellt Reginn að því leyti að við það flyst álag og áhætta frá félaginu sem óneitanlega fylgir uppbyggingu íbúðarverkefnis sem þessa, en bygging íbúðarhúsnæðis er utan núverandi kjarnastarfsemi Regins.