Eyja fjárfestingarfélag, félag hjónanna Birgis Bieltvedt og Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur, hefur fest kaup á fasteigninni að Suðurlandsbraut 18 af fasteignaþróunarfélaginu Festi, sem er í eigu Ólafs Ólafssonar og eiginkonu hans, Ingibjargar Kristjánsdóttur. Kaupverð fasteignarinnar nemur 1,2 milljörðum króna.

Meginþorri kaupverðsins er greiddur með peningum en hluti þess er greiddur með tveimur fasteignum. Annars vegar er um að ræða Lækjargötu 4 í miðbæ Reykjavíkur, þar sem veitingastaðurinn Jómfrúin er til húsa, og hins vegar er um að ræða Lágmúla 7, sem er vörugeymsla sem leigð er út til Sýnar og Nova.

Umrædd fasteign, sem er um 3.400 fermetrar að stærð, er í daglegu tali betur þekkt sem Esso-húsið, en Olíufélagið lét reisa fasteignina árið 1975. Festir hafði stefnt á að opna hótel í húsnæðinu og hafði félagið fengið samþykki fyrir því, auk þess sem samþykkt var að byggð yrði viðbygging við húsið. Átti hótelið að vera með allt að 200 herbergjum en að lokum var fallið frá þeim áformum. Kvikmyndaskóli Íslands gerði síðastliðið sumar 20 ára leigusamning við Festi og mun sá leigusamningur áfram vera í gildi þrátt fyrir eigendaskiptin.

„Við höfum hægt og rólega verið að færa okkur úr rekstri yfir í fasteignaviðskipti og þessi kaup eru liður í því," segir Birgir Bieltvedt. „Við höfum í raun verið á þessari vegferð frá því að við seldum okkur út úr Domino's árið 2017. Hugsunin á bak við þetta er að breikka eignarhald og fjárfestingar félagsins, og dreifa þannig áhættunni. Við erum þó ennþá í veitingarekstri og erum m.a. með stóra stöðu í Domino's í Noregi, þar sem eru reknir 40 staðir, auk þess að vera meðal hluthafa í Joe & The Juice og Brauð & Co á Íslandi. Við erum því að taka eitt og eitt skref í þessa átt en við munum aldrei hætta alfarið í rekstri," bætir hann við.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .