Búið er að ganga frá kaupum á 5,34% hlut í eigu Kaupþings í Arion banka til innlendra verðbréfasjóða, Goldman Sachs og Attestor Capital fyrir 9,53 milljarða króna. Erlendu sjóðirnir kaupa samtals 2,8% hlut í bankanum, og íslensku aðilarnir 2,54% hlut.

Innlendu aðilarnir eru 24 sjóðir í stýringu hjá Stefni, Íslandssjóðum, Landsbréfum og Júpiter.

Tryggingarfélög munu ekki þiggja boð um að kaupa hlut í Arion banka að svo stöddu samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Stefnt er að skráningu Arion banka á markað í vor.

Salan þýðir að 25 milljarða arðgreiðslur til hluthafa Arion banka, sem samþykktar voru á hluthafafundi bankans í gær munu virkjast. Arðgreiðslan var skilyrt við að Kaupþingi tækist að selja minnst 2% hlut í bankanum fyrir 15. apríl næstkomandi. Þá var einnig samþykkt heimild Arion banka til að kaupa 10% af eigin bréfum fram til 15. apríl og mun kaupverðið þá dragast frá fjárhæð arðgreiðslnanna.

Lífeyrissjóðir tilkynntu Kaupþingi fyrir helgi að þeir hygðust ekki kaupa hlut í Arion banka að svo stöddu. Gildi benti á í yfirlýsingu í dag að lífeyrissjóðnum hefði borist kauptilboð á hlut í Arion banka 24. janúar. Gildi hafi því haft skamman tíma til að meta fjárfestinguna en Kaupþing hefur lagt mikla áherslu á að ganga frá sölu áður en uppgjör Arion banka verður birt á morgun. Ríkissjóður hefur forkaupsrétt á hlutum í Arion banka sé kaupverðið undir 0,8 krónum á hverja krónu af eigin fé. Því mun hagnaður hjá Arion banka á síðasta ársfjórðungi hafa í för með sér hækkun á eigin fé bankans og þar með hækkun á því verði sem forkaupsréttur ríkisins virkjast við.

„Gildi óskaði eftir að fá meiri tíma til að meta fjárfestinguna, ekki síst til að fá tækifæri til að leggja mat á endurskoðað uppgjör Arion banka sem birt verður á morgun. Ekki náðist saman um það. Þá ríkir enn talsverð óvissa um skráningu Arion banka á markað og einnig skortir að mati sjóðsins skýrari sýn á framtíðarrekstur bankans,“ segir í frétt á vef Gildis.

Eftir söluna mun Kaupþing eiga 52% hlut í Arion banka í gegnum félagið Kaupskil ehf., ríkissjóður mun áfram eiga 13% og Goldman Sachs og þrír erlendir vogunarsjóðir eiga samtals um 30% í bankanum.

Stærstur hluti kaupverðsins og væntra arðgreiðslna Arion banka mun renna til ríkissjóðs sem hluti af stöðugleikaframlagi Kaupþings.

Fréttin hefur verið uppfærð með nánari upplýsingum um kaupendurna og kaupverð.