Kaupum Michelle Ballarin á flugrekstrartengdum eignum Wow air, úr þrotabúi félagsins, hefur verið rift. Ástæðan er sú að fyrsta greiðsla af fjórum, fyrir eignirnar, hefur ekki borist. Það er Morgunblaðið sem greinir frá.

Greint var frá kaupunum á forsíðu Fréttablaðsins þann 12. júlí og þá fullyrt að þau væru frágengin. Sama dag greindi Viðskiptablaðið frá því að Michele „Amira“ Ballarin stæði á bak við kaupin. Tæpum tveimur vikum birti Morgunblaðið síðan viðtal við Ballarin þar sem hún fullyrti að þegar væri búið að tryggja 85 milljónir dollara til reksturs Wow 2.

Kaupverð fyrir eignir búsins hefur ekki fengist uppgefið en í frétt Morgunblaðsins er fullyrt að það hafi verið 1,5 milljónir dollara, rúmlega 183 milljónir íslenskra á gengi dagsins, sem skyldi greiðast með fjórum greiðslum. Sú fyrsta hafi ekki borist og kaupunum hafi því verið rift.

„Þrátt fyrir riftunina mun þeim skilaboðum hafa verið komið til Ballarin og viðskiptafélaga hennar að eignir þrotabúsins séu enn til sölu,“ segir í grein Mbl. Óljóst sé hins vegar hvort Ballarin muni kaupa þær á ný eða hópurinn sem stendur að baki WAB air.