Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 8,5% á síðustu 12 mánuðum frá október 2015. Á sama tíma hefur söluverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 13,6%. Þetta kemur fram í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans .

Almennt séð þá hafa breytingar á leigu- og kaupverði fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu haldist í hendur allt frá árinu 2011 þegar farið var að birta vísitölu leiguverðs. „Um mitt sumar 2015 mældist töluverð lækkun á húsaleigu þanngið að vísitala leiguverðs dróst töluvert aftur úr vísitölu kaupverðs og það sama gerðist síðastliðin vor. Staðan er því sú að kaupverð fjölbýlis hefur hækkað um 7,5% meira en leiguverð frá upphafi ársins 2011,“ segir í Hagsjánni.

Mesta breytingin er í 2ja herbergja íbúðum Kópavogi

Ef leiguverð er borið saman milli tveggja tímabila, meðaltala ágúst, september og október árin 2015 og 2016, er hægt að sjá hvar breytingin er mest án þess að sveiflur milli einstakra mánaða hafi áhrif. Vísitala leiguverðs hækkaði um 9,3% á milli þessara tímabila.

Mesta breytingin á leiguverð á þessum tíma er 29% hækkun á tveggja herbergja íbúða í Kópavogi og þar eftir koma stærstu íbúðirnar í vesturhluta Reykjavíkur, í Kópavogi og Breiðholti, með 14-20% hækkun, segir í Hagsjánni.

Minnstu breytingarnar eru hins vegar 3% lækkun á stærstu íbúðunum á Akureyri og 1% lækkun á tveggja herbergja íbúðum í Garðabæ og Hafnarfirði.