Keahótel ehf., sem rekur níu hótel víðs vegar um landið, tapaði 497 milljónum króna á síðasta ári, en félagið hagnaðist um 118 milljónir árið áður. Velta hótelkeðjunnar nam ríflega 1,3 milljörðum og dróst saman um 77% frá fyrra ári. Rekstrartap nam 822 milljónum. Meðalfjöldi stöðugilda minnkaði úr 321 í 151 milli ára.

Eignir samstæðunnar í árslok 2020 námu 1,3 milljörðum króna en bókfært eigið fé var neikvætt um 128 milljónir.

Félagið nýtti sér úrræði stjórnvalda, þar á meðal hlutabótaleið, frestaðar skattgreiðslur, frestun greiðslna á gistináttaskatti og stuðning vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Þá gerði félagið samning við viðskiptabanka sinn um lán að fjárhæð 520 milljónir króna, að hluta með ríkisábyrgð.

Keahotels var í eigu K acquisition fram að fjárhagslegri endurskipulagningu í desember síðastliðnum en það var lýst gjaldþrota mánuði síðar . Í kjölfarið eignaðist Lands bankinn, einn stærsti kröfuhafinn, 35% hlut í hótelkeðjunni.

Sömu eigendur og áttu K acquisitions lögðu Keahótels til nýtt hlutafé og eiga nú 65% hlut í gegnum félagið Prime Hotels ehf. K acquisitions var stofnað utan um kaup á Keahotels árið 2017. Stærstu hluthafar félagsins voru Pt Capital með 50% hlut og JL Properties og Erkihvönn með 25% hlut hvort um sig.