Eins og fjallað var um í gær mun Nasdaq verðbréfamiðstöð taka upp nýtt uppgjörskerfi þann 25. maí næstkomandi. Kerfið verður það sama og notað er í öðrum löndum sem eru hluti af Nasdaq CSD en það eru Eystrasaltslöndin Eistland, Lettland og Litáen. Útibúið á Íslandi mun starfa á grundvelli íslenskra laga undir eftirliti Seðlabanka Íslands auk þess að vera undir sameiginlegu eftirliti í löndunum fjórum. Magnús Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Nasdaq verðbréfamiðstöðvar, segir það að vera hluti af stærri heild fela í sér mikil tækifæri.

„Þetta er frábært tækifæri fyrir okkur og gerir það að verkum að við erum komin inn í miklu stærra umhverfi sem gerir okkur kleift að taka inn hugmyndir, hafa áhrif á hugmyndir og þróun og færa aukið virði til baka til okkar viðskiptavina. Að sama skapi viljum við halda áfram að eiga í góðu samtali við viðskiptavini okkar til að átta okkur á því hvernig við getum þjónustað þá með betri hætti og skapað nýjar vörur og þjónustu sem koma þeim vel.

Það að sameinast inn í stærri umgjörð kemur bæði okkur og íslenska markaðnum betur á kortið og gefur okkur betra tækifæri til að kynna hann fyrir alþjóðlegum aðilum undir formerkjum Nasdaq,“ segir Magnús.

„Við erum núna í markaðsprófunum á nýju kerfi með okkar viðskiptavinum og verður töluverð vinna í því á næstu vikum. Allir okkar viðskiptavinir þurfa að tengjast og aðlaga sín kerfi í samræmi við breytt umhverfi. Þetta er því líka mikil breyting fyrir bankana þar sem stærsta breytingin verður líklega sú að við erum að fara að eiga bein samskipti við stórgreiðslukerfi Seðlabankans en ekki fyrir milligöngu Reiknistofu bankana eins og gert er í dag. Þessu til viðbótar þurfum við að tryggja að við uppfyllum kröfur CSDR. Við sendum inn umsókn í október síðastliðnum til erlendu eftirlitsaðilana og núna í febrúar eftir að CSDR var samþykkt hér á landi var umsóknin framsend til fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands sem hefur þrjá mánuði til að fara yfir umsóknina og sjá til þess að hún uppfylli kröfur íslenskra laga.

Það er alveg á hreinu að Seðlabankinn hefur mikið um þetta að segja að lokum og þeirra yfirferð mun standa yfir fram í byrjun maí. Þau hafa haft með höndum umsóknina í lengri tíma og við höfum átt mjög gott samtal um hana þannig að ég reikna ekki með neinu óvæntu úr því. Hingað til hefur ekkert bent til annars en að starfsleyfið verið veitt í byrjun maí sem mun gera okkur kleift að ljúka verkefninu á tilsettum tíma.“

25. maí er ekki endastöð heldur byrjun á framhaldinu. Þarna erum við komin með grunn til að byggja næstu skref á og getum farið að gera betur á öðrum vígstöðvum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .