Fyrirtækið Kerecis sem jók veltu  sína um 100% milli ára og hlaut Vaxtarsprotann 2017. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, afhenti verðlaunin í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum iðnaðarins.

Vaxtarsprotinn er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Háskólans í Reykjavík og Rannsóknarmiðstöðvar Íslands.

Kerecis var stofnað árið 2009 og er dæmi um vaxtasprota sem hefur aukið veltu sína gífurlega hratt á nokkrum árum. Til að mynda hefur fyrirtækið aukið umsvif sín talsvert á erlendri grundu og hefur starfsmannafjöldi þeirra vaxið úr 18 í 26 og útflutningur nemur yfir 91% af veltu.

Kerecis er lækningavörufyrirtæki sem notar roð til að græða sár og styrkja líkamsvefi, til dæmis við endurgerð á brjóstum og til viðgerðar á kviðslitum. Fyrirtækið hefur verið að hasla sér völl í Bandaríkjunum sem er einn kröfuharðasti markaður í heimi fyrir lækningavörur. Vöxtur í sölu fyrirtækisins kemur fram þremur árum eftir að markaðsleyfi fengust fyrir fyrstu vöru fyrirtækisins sem var til meðhöndlunar á sykursýkissárum. Kerecis er með skráð einkaleyfi í Bandaríkjunum og fleiri löndum og hafa meira en 10 þúsund sjúklingar verið meðhöndlaðir með sáraroði félagins á undanförnum árum.

Valka velti yfir milljarði

Einnig voru veitt sérstök viðurkenning til sprotafyrirtækis sem á síðasta ári náði að velta í fyrsta sinn meira en einum milljarði króna. Að þessu sinni hlaut fyrirtækið Valka viðurkenninguna. Áður hafa til að mynda CCP, Betwere, Nimblegen, Naust Marine, Nox Medical og Vaki fiskeldiskerfi náð þessum áfanga.

Valka hannar og framleiðir hátæknilausnir fyrir vinnslu á fiski með það að markmiði að auka afköst, nýtingu og framleiðni í samræmi við óskir viðskiptavina sinna. Fyrirtækið var stofnað árið 2003 af Helga Hjálmarssyni verkfræðingi sem hefur frá upphafi leitt fyrirtækið og verið framkvæmdastjóri þess. Starfsmenn fyrirtækisins voru  rúmlega 40 talsins um síðustu áramót og hafði þá fjölgað um um fjórðung á árinu.

Tveir aðrir sprotar hlutu viðurkenningu

Tvö önnur sprotafyrirtæki: Kvikna og TeqHire, hlutu einnig viðurkenningar fyrir vöxt í veltu. Kvikna vinnur að þróun og markaðssetningu á ýmsum vörum tengdum heilalínuriti til greiningar á flogaveiki auk þess sem fyrirtækið selur rannsóknar- og þróunarvinnu til annarra fyrirtækja, bæði hérlendis og erlendis.

TeqHire var stofnað árið 2013 og hefur síðustu fjögur ár hefur fyrirtækið sérhæft sig í ráðningum og ráðgjöf með áherslu á upplýsingatæknimarkað. Félagið stendur að þróun á mannauðsmiðaðri hugbúnaðarlausn sem meðal annars einfaldar og bætir ráðningarferla þekkingarstarfsfólks.