Þegar ég byrjaði 1. janúar 2015 var ég kominn á eftirlaunaaldur í Svíþjóð og ætlaði að hætta að vinna hefðbundin störf en ætlaði mér að sinna einhverjum verkefnum og halda fyrirlestra,“ segir Birgir Jakobsson landlæknir. „Þá hafði ég fundið hvernig var að vera í fríi í tvo mánuði og leiddist það frekar og hugsaði að það gæti verið áhugavert að sækja um starf landlæknis,“ segir Birgir og brosir. Birgir var viðmælandi Viðskiptablaðsins í vikunni.

„Ég er læknir og hef unnið í heilbrigðiskerfinu síðan 1975 og hef séð heilbrigðiskerfið frá sjónarhóli lækna, stjórnenda og séð raunverulega hvað er að í heilbrigðiskerfinu og hef mikinn áhuga á hvernig við getum bætt það frá sjónarhóli sjúklinga. Frá 1990 hef ég meira og minna unnið að því hvernig við getum innleitt ný vinnubrögð í heilbrigðiskerfið til að bæta öryggi og gæði þjónustunnar,“ segir Birgir.

„Síðan þegar ég kem hingað sé ég heilbrigðiskerfið frá allt öðru sjónarhorni. Það voru erfiðir tímar og margt sem kom mér á óvart. Ég vissi að kreppan hafði haft áhrif og mikið vantraust í þjóðfélaginu. En samt sem áður kom margt mér á óvart. Ég kem að utan úr allt öðrum aðstæðum og átti erfitt með að skilja ýmislegt en fannst ég fljótt átta mig á hvert vandamálið væri.“

Og hvert var eða er vandamál heilbrigðiskerfisins að þínu mati?

„Staðan hefur að mörgu leyti batnað að því leytinu til að það sem var í deiglunni þá voru launakjör heilbrigðisstarfsmanna. Ég held að þau hafi að verulegu leyti batnað. Almennt séð stendur íslenskt heilbrigðisfólk starfsbræðrum sínum og systrum á Norðurlöndunum ekki að baki. En það sem hefur haldið áfram er að það hafa ekki verið neinar breytingar á kerfisþáttum heilbrigðiskerfisins. Kerfið er að vinna nákvæmlega eins og það hefur alltaf gert. Mér fannst ég snemma átta mig á því að kerfið og þessir hvatar í kerfinu eru að leiða okkur í ranga átt, bæði í opinbera kerfinu og í einkageiranum. Hvatarnir í opinbera kerfinu hafa verið frekar neikvæðir og ekki hvatt raunverulega til afkasta með því fjármögnunarkerfi sem er þar. En það er verulega hvatt til afkasta í einkageiranum.“

Það er eitthvað sem þú hefur verið mjög gagnrýninn á.

„Já, ég hef verið það í báðum geirum. Það er lítil áhersla lögð á að þú sért að ná árangri og gæðum. Ég hef sérstaklega lagt áherslu á það eftir að ég kem hingað. Við fáum kvartanir hér og alvarleg atvik til rannsóknar. Það hefur valdið mér áhyggjum að þeir sem reka hér heilbrigðisþjónustu gera litlar kröfur um að þeir sýni hvaða árangri þeir ná. Þetta hefur mér þótt sérstaklega gilda um einkareknu þjónustuna. Ég er ekki að segja að þeir hafi ekki áhuga á að gera það en það hafa ekki verið gerðar kröfur um það. Ég er vanur því erlendis frá að sá sem greiðir fyrir þjónustuna, gerir ákveðnar kröfur um hvaða árangri þú átt að ná.“ Í tilviki einkaaðila væri þessi greiðandi Sjúkratryggingar Íslands fyrir hönd íslenska ríkisins.

Liggur vandinn þá hjá þeim sem eru að veita þjónustuna eða greiða fyrir hana eða hvorum tveggja?

„Vandinn liggur hjá þeim sem greiða fyrir þjónustuna. Greiðslukerfi móta verulega hegðun þeirra sem vinna í ákveðinni þjónustu. Það skiptir engu máli hvort það er heilbrigðisþjónusta eða einhver önnur þjónusta. Þú leggur áherslu á það sem þú færð greitt fyrir. Við erum bara mannleg. Þess vegna hefur heilbrigðiskerfið þróast á þennan hátt. Ef við ákveðum ekki að vinda ofan af þessu á einhvern hátt þá höldum við bara áfram sömu leið.“

Ekki í takt við þróun læknisfræðinnar

Birgir segir að þessi þróun sé ekki í takt við þróun læknisfræðinnar. „Læknisfræðin hefur þróast alveg gífurlega á þeim tíma sem ég hef haft til að fylgjast með og ef við lítum enn lengra aftur í tímann. Fjöldi sérgreina og sérkunnátta fer vaxandi. Þú ert orðinn sérhæfður á þröngu sviði. Það er búið að búta mannslíkamann upp í alls konar parta. Það þýðir að það er enginn einn sérfræðingur sem getur ráðið við marga sjúkdóma. Fólk þarf að vinna saman og margir sérfræðingar þurfa að koma að greiningu ýmissa sjúkdóma og ákveða hvaða meðferð á að velja. Enginn einn getur ákveðið þetta.“

Birgir segir kerfið á Íslandi hafa þróast mikið í áttina að einkareknum stofum þar sem sérfræðingar starfa mikið til einir. Það rími illa við þessa þróun. „Sérfræðingar hafa dregist út á stofur af ýmsum ástæðum – bæði vegna þess að þeir fá betur greitt fyrir það en í opinberu þjónustunni og líka vegna þess að þeir fá svolítið léttari vinnu þar. Auðvitað fer maður þangað. Ég myndi sennilega gera það sjálfur.“

Þarf heilbrigðiskerfið þá að nálgast sjúklinga með heildstæðari hætti og í teymum?

„Ég held að það sé þróun sem er þegar að verða á vissum sviðum. Ég sé á Landspítalanum þverfagleg teymi í meiri mæli. En það þarf að gera það enn meira. Það er of mikið af heilbrigðisstarfsfólki á öllum sviðum, líka sálfræðingar og sjúkraþjálfara, sem starfar eitt og hefur ekki mörg úrræði til að grípa til. Ég held að margir stofulæknar hafi engin önnur úrræði en samtal og að skrifa lyfseðil. Þú hefur ekki teymið í kringum þig sem þú getur hagnýtt þér og veitt sjúklingnum aðgang að. Þess vegna hef ég talað mjög fyrir því að breikka aðkomu heilsugæslunnar að því þannig að við fáum miklu meiri þekkingu inn á hana, ekki bara þekkingu lækna.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .