MMR stóð nýlega fyrir vinsældakosningu íslensku jólasveinanna, fjórða árið í röð. Kertasníkir reyndist hlutskarpastur líkt og fyrri ár og heldur titlinum "Uppáhalds jólasveinn Íslendinga" með 29% tilnefninga. Stúfur situr sem fastast í öðru sætinu með 25% tilnefninga en vinsældaukning hans frá því í fyrra gekk að mestu til baka í ár. Hurðaskellir var svo í þriðja sæti með 13% tilnefninga en hann hefur hreiðrað um sig í því sæti síðan mælingar hófust.

Nokkurn mun var að finna á vinsældum jólasveinanna eftir kyni svarenda. Kertasníkir var efstur á blaði hjá konum líkt og í síðustu mælingum en 39% kvenna sögðu hann sinn uppáhalds jólasvein, samanborið við 19% karla. Þá naut Stúfur mestra vinsælda á meðal karla (22%) en lenti í öðru sæti á meðal kvenna (27%).

Hurðaskellir mætti með látum í þriðja sætið hjá báðum kynum en jólasveinninn ærslafulli reyndist þó ögn vinsælli hjá körlum (16%) heldur en konum (10%). Mestan mun á vinsældum eftir kyni svarenda var að finna hjá Bjúgnakræki, sem reyndist uppáhalds jólasveinn 9% karla en einungis 1% kvenna.