Seðlabanki Íslands keypti skuldabréf fyrir 5,7 milljarða króna að kaupverði á fyrsta ársfjórðungi. Á öðrum ársfjórðungi getur heildarfjárhæð skuldabréfakaupa bankans numið allt að 20 milljörðum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Seðlabankans.

Kaupverðið á fyrstu þremur mánuðum ársins skiptist þannig að keypt var í skuldabréfaflokknum RIKB25 fyrir 2,1 milljarð, RIKB28 fyrir 1,8 milljarða og RIKB31 fyrir 1,8 milljarða króna.

Kaupin eru í samræmi við yfirlýsingu peningastefnunefndar frá 23. mars á síðasta ári . Nefndin tilkynnti þar um að hún hefði heimilað bankanum um að kaupa ríkisskuldabréf fyrir allt að 150 milljarða króna.

Heildarkaup bankans á öðrum ársfjórðungi í fyrra námu 892 milljónum króna, engin kaup áttu sér stað á þriðja ársfjórðungi en bankinn keypti fyrir samtals 6,7 milljarða á fjórða ársfjórðungi 2020. Samtals hefur magnbundin íhlutun Seðlabankans því numið ríflega 13,3 milljörðum króna frá því að hann hóf skuldabréfakaup í maí á síðasta ári.