Kaup Loftleiða, dótturfélags Icelandair ásamt hópi fjárfesta, þar með talið Björgólfi Jóhannssyni fyrrverandi forstjóra, á 51% hlut í TACV, ríkishlutafélagi Grænhöfðaeyja námu 1,3 milljónum evra. Hluti af greiðslunni kemur til af vinnu Loftleiða fyrir félagið á síðustu árum samkvæmt samningi.

Þetta kemur fram í þarlendum miðlum , en um er að ræða andvirði 177 milljóna íslenskra króna. Til viðbótar lofa fjárfestarnir, sem saman mynda félagið Loftleiðir Cabo Verde, 6 milljón króna viðbótarfjármagni inn í félagið, eða andvirði 819 milljóna íslenskra króna.

Jens Bjarnason er forstjóri þess félags, en Loftleiðir eiga 70% í félaginu en fjárfestahópurinn 30%. Reksturinn verður ekki hluti af samstöðureikningi Icelandair.

Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um kaupin, en Loftleiðir hafa nú síðan árið 2017 komið að félaginu og enduruppbyggingu þess með leigusamningum á vélum og sérfræðiþekkingu inn í endurskipulag félagsins. Er hugmyndin að byggja upp á eyjunum svipaðan tengipunkt yfir Atlantshafið líkt og byggt hefur verið upp á Íslandi, en einnig fyrir flug til vesturstrandar Afríku og Suður Ameríku.

Félagið hefur verið rekið með tapi síðustu ár, og segir ríkisstjórnin það tæknilega séð vera gjaldþrota, en að ríkið hafi fjármagnað hallarekstur þess sem leitt hafi til 30 milljóna evru taps fyrir ríkissjóðs.

Skuldir félagsins námu 100 milljón evrum áður en hafist var handa við að endurskipuleggja félagið og skuldir þess, og var félagið metið á 9,2 milljónir evra, þar sem fasteignir þess voru að andvirði 5,48 milljóna evra. Ríkið hefur eftirlátið 10% af hlutafé í félaginu til starfsmanna og annarra hópa, en heldur enn 39% eignarhlut.

Hér má lesa frekari fréttir um fjárfestingar Loftleiða í suðurhöfum: