Orri Hauksson forstjóri Símans, Óskar Hauksson fjármálastjóri, Magnúsi Ragnarsson framkvæmdastjóri sölu og Eric Figueras framkvæmdastjóri þjónustu hjá Símanum hafa allir keypt bréf í símanum fyrir rétt um 600 þúsund krónur.

Fengu þeir bréfin á genginu 2,62 krónur, sem er um þriðjungi undir gengi bréfanna í dag, en þegar þetta er skrifað hefur gengi bréfa í félaginu lækkað um 0,77% í dag og standa þau í 3,89 krónum. Söluhagnaður þeirra hvers fyrir sig gæti því numið 291 þúsund krónum.

Orri Hauksson staðfestir í samtali við Viðskiptablaðið að þeir séu að nýta sér kauprétti. „Þetta er prógram sem sett var af stað fyrir þremur árum, þar sem allir starfsmenn í Símanum hafa rétt á því að kaupa fyrir allt að 600 þúsund á genginu sem var fyrir þremur árum, á ári, þannig að við erum að nýta þann rétt,“ segir Orri.

„Þetta nær til allra starfsmanna Símans í dag sem voru starfandi fyrir þremur árum.“ Miðað við gengi bréfanna núna gætu þér félagar selt bréfin á tæplega 891 þúsund krónur, svo samanlagður hagnaður þeirra af viðskiptunum nemur tæplega 1,2 milljónum króna.

Eftir kaupin á Orri Hauksson 40,5 milljón bréf í félaginu en markaðsvirði þeirra í dag er um 157,6 milljónir. Eric á um 8,4 milljónir bréfa, að andvirði 32,7 milljónir, Óskar á um 4,4 milljón bréf sem eru að andvirði um 17,2 milljónir og Magnús á 229 þúsund bréf, sem eru að andvirði um 891 þúsund krónur.