Síðasta ár reyndist sæmilegt hjá stærstu sælgætisframleiðendum landsins þrátt fyrir að farsóttin hafi verið áskorun. Aukin sala gerði vart við sig samhliða því að fjölskyldur þurftu að gera vel við sig heima fyrir og í tengslum við ferðalag landans innanlands.

„Aðstaðan sem fylgdi sóttinni var auðvitað áskorun. Eðlilega var sumt brokkgengt en annað gekk betur. Fólk var eðlilega mikið heima þannig að við sáum mikla aukningu í sölu á bökunarvörum á borð við suðusúkkulaði. Á móti hrundi sala í fríhöfninni, á hótelum og til kvikmyndahúsa,“ segja Lasse Ruud-Hansen, nýr forstjóri Nóa Síríus, og Auðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs.

Sala félagsins dróst eilítið saman á síðasta ári en á móti hækkaði kostnaður. EBITDA nam tæplega 269 milljónum króna og dróst saman um ríflega 165 milljónir. Endanleg afkoma var 42 milljóna tap en var 85 milljóna hagnaður árið 2019. Í skýrslu stjórnar er þess getið að farsóttinni hafi fylgt töluverður kostnaður, bæði vegna sóttkvía starfsfólks og verkefnaskorts, en þrátt fyrir það ákváðu stjórnendur að nýta sér ekki úrræði sem stjórnvöld buðu upp á.

„Þetta var umtalsverður kostnaður sem féll á okkur þegar sem mest var. Við þurftum að hólfa framleiðsluna niður og salan dróst saman. En við afréðum að taka það á kassann enda þurftu önnur félög meira á þessu að halda,“ segja Auðjón og Lasse. Þá hafi birgðakeðjan einnig verið til vandræða og lengri tíma hafi tekið að fá aðföng til landsins. Með útsjónarsemi hafi þó tekist að láta það ganga upp.

Sem kunnugt er skipti Nói um eigendur á þessu ári þegar allt hlutafé komst í eigu norska félagsins Orkla ASA. Félagið hafði keypt fimmtungshlut árið 2019. Um síðustu mánaðamót steig Finnur Geirsson úr forstjórastól og fyrrnefndur Lasse tók við.

„Viðskiptin fóru endanlega í gegn í júní, ég tók við af Finni í ágúst og ekki er hægt að segja annað en að ég hafi tekið við góðu búi. Fyrsta vikan hérna var auðvitað eilítið öðruvísi en það sem ég hef verið vanur, en munurinn á Íslandi og Noregi er ekki stórvægilegur. Síðan nam ég í Bergen, svo að ég er vanur veðráttunni,“ segir Lasse.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .