Skyndibitastaðurinn KFC á Íslandi hagnaðist um 272 milljónir króna í fyrra og nærri þrefaldaðist hagnaðurinn fráárinu 2019, þegar hann var um 92 milljónir. Í skýrslu stjórnar segir að ekki sé að sjá að faraldur kórónuveirunnar hafi haft veruleg áhrif á reksturinn.

Rekstrartekjur námu 3,6 milljörðum króna og jukust um 220 milljónir milli ára. Rekstrargjöld stóðu nánast í stað og námu tæplega 3,3 milljörðum króna og nam rekstrarhagnaður (EBIT) því um 342 milljónum króna.

Laun og launatengd gjöld námu 1,2 milljörðum, samanborið við 1,15 milljarða á fyrra ári, en meðalfjöldi starfsmanna var 143 á árinu og fækkaði um tvo milli ára.

Eignir félagsins námu um 1,4 milljörðum króna í árslok, en þar af nam eigið fé um einum milljarði króna, sem er aukning um 25% frá fyrra ári. Skuldir námu 415 milljónum og jukust í nær sama hlutfalli og eignir milli ára og var eiginfjárhlutfall félagsins því um 71% í árslok, líkt og ári fyrr.

Greiddur var út 64 milljóna króna arður til hluthafa vegna fyrra rekstrarárs.