Samninganefndir Bandaríkjanna og Kína funda nú í Peking, höfuðborg Kína, með það fyrir augum að leysa tolladeiluna sem ríkt hefur á milli þeirra, en á síðasta ári lögðu ríkin tolla upp á samtals um 43 þúsund milljarða króna hvort á annað.

Tveggja daga samningalotan er sú fyrsta formlega síðan ríkin samþykktu 90 daga hlé á álagningu frekari tolla, en áhyggjur af áhrifum deilunnar á alþjóðahagkerfið hafa farið vaxandi nýverið.

Hagfræðingur hjá ráðgjafafyrirtækinu Capital Economics segir í samtali við BBC að enn sé ansi langt í land, en helstu bitbeinin verði iðnaðarstefna og hugverkaréttur.

Tollarnir hafa aukið þrýsting á kínverska hagkerfið, sem þegar er farið að bera merki kulnunar, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði fyrir fundinn að gæti liðkað fyrir viðræðunum. „Ég held að Kína vilji leysa þetta. Hagkerfið þeirra stendur ekki traustum fótum. Ég held það sé þeim mikil hvatning til að semja.“ var haft eftir honum í gær.

Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins sagði kínversk yfirvöld standa í viðræðunum af heilindum, og að gagnkvæm virðing og jöfnuður væru grundvöllur lausnar á deilunni.