Jeremy Hunt, nýr utanríkisráðherra Bretlands, segir að kínversk stjórnvöld hafi boðist til að opna viðræður um fríverslun við Breta sem tæki gildi þegar útgönguferlinu úr Evrópusambandinu lýkur.

Þann 29. mars árið 2019 mun Bretland á ný verða að fullu stjálfstætt og fullvalda ríki, þó deildar meiningar séu um áætlun Theresu May forsætisráðherra um að halda áfram að hlýta sumum reglugerðum frá ESB í iðnaðarframleiðslu.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma sögðu bæði Boris Johnson utanríkisráðherra og David Davis ráðherrann sem sér um útgönguferlið af sér þegar May tilkynnti um áætlun sína.

Hunt, sem tók við utanríkisráðuneytinu fyrr í mánuðinum, sagði frá boði Kínverja á blaðamannafundi í morgun í kjölfar viðræðna við kínverska ráðamenn. Í janúar hafði þó Li Keqiang, forsætisráðherra Kína, sagt við Theresu May að samband Kína og Bretlads verði þó óbreytt í gegnum útgönguferlið sjálft, svokallað Brexit.