Ástralska fyrirtækið Ansell er í næst efsta sæti yfir stærstu smokkaframleiðendur heims. Fyrirtækið hefur nú tekið ákvörðun um að selja smokkaframleiðsluna og það á ríflega 600 milljónir dollara.

Salan hefur fengið umfjöllun í helstu fjölmiðlum heimsins, enda er um umfangsmikil viðskipti að ræða. Vörumerki félagsins heita Mates, Skyn og Jissbon.

Kaupendurnir eru Humanwell Healthcare Group og CITIC Capital China Partners. Talsmenn Ansell taka viðskiptunum fagnandi, en salan heimilar þeim að einbeita sér betur að annari framleiðslu.

Kínversku fjárfestarnir eru einnig ánægðir, enda er því spáð að smokkamarkaðurinn vaxi um 12% á ári fram til ársins 2024. Markaðurinn verður því nær 5 milljarðar dollara að stærð.

Gengi Ansell hækkaði um 4,3% í kauphöllinni í Sydney. Á síðustu tólf mánuðum hefur gengi fyrirtækisins hækkað um nær þriðjung.