Stjórnvöld í Kína hafa heimilað þarlendum bönkum að lána meira með því að lækka bindiskyldu þeirra. Þar með geta þeir lánað meira því þeir þurfa að geyma minna í varasjóðum.

Er þetta gert til að reyna að koma í veg fyrir að harðnandi tollastríð við Bandaríkin hægi um of á hagkerfinu. Með heimildinni losnar um 750 milljarða yuan, eða sem samsvarar 12.536 milljörðum íslenskra króna af lausafé út í hagkerfið.

Er þetta í fjórða sinn sem seðlabanki landsins hefur lækkað bindisskyldu kínverskra banka á árinu, en fyrir lækkunina hafa viðskiptabankar þurft að halda eftir 15,5% af eigin fé sínu en minni bankar 13,5%.

Með heimildinni geta bankar lánað meira til viðskiptavina sinna og hvers annars. Deilur kínverskra og bandarískra stjórnvalda hafa þegar haft áhrif á hlutabréfamarkað og gjaldmiðil Kína og það eru merki um að það sé farið að hægjast á hagkerfinu.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um virðist sem hvorugur deiluaðilanna sýni merki um að bakka. Bandarískur álitsgjafi sem nýlega var staddur hér á landi sagði skýringuna sú að Trump misskildi viðskiptahalla í grundvallaratriðum. Bætti jafnvel Donald Trump Bandaríkjaforseti í með ásökunum um afskipti af kosningum og þróun gjaldmiðils landsins að því er BBC greinir frá.