„Ég hallast að glasið sé hálffullt frekar en hálftómt og að íslenski hlutabréfamarkaðurinn sé orðinn mjög ódýr í hagkerfi þar sem undirstöðurnar eru traustar,“ segir Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða hjá Gamma. Ótti við yfirstandandi kjaraviðræður liti markaðina.

„Ég held að það sé búið að mála svartsýnustu spá inn í alla verðlagningu,“ segir Agnar. „Við erum með mjög gott umhverfi á heildina litið.“ Á skuldabréfamarkaði séu margir þættir sem styðji við markaðinn. Spennan í hagkerfinu sé að minnka, sjóðsfélagalán og lánveitingar virðist vera að dragast saman, og skuldabréfaeign ríkissjóðs og bankanna í heild sé að dragast saman og líkur séu á að innflæðishöft Seðlabankans verði afnumin á fyrri hluta ársins. Allir þessir þættir styðji við skuldabréfamarkaðinn. Þá séu raunstýrivextir á niðurleið og séu undir 1% en til samanburðar hafi þeir verið nálægt 2,5% fyrir ári.

Heiðar Guðjónsson, fjárfestir og stjórnarformaður Sýnar, segir hlutabréf hér á landi mjög ódýr, sama til hvaða verðmatsaðferða sé horft. „Hér er búið að styrkja stoðir kerfisins gríðarlega síðasta áratug með tilheyrandi minnkun áhættu en tveir þættir aðallega gera það að verkum að tiltrú fjárfesta er lítil. Til skamms tíma eru kjarasamningar fram undan og svo er það skortur á fjármagni,“ segir Heiðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .