Hæstiréttur Íslands hefur úrskurðað að ógilda vöruerkið Toppís, í deilu íslensku ísframleiðandanna Emmessís og Kjörís, en bæði hafa framleitt ís undir vöruheitinu. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í sumar féllst Hæstiréttur á beiðni Kjörís um áfrýjun í deilunni því úrlausn hennar gæti haft fordæmisgildi fyrir vörumerkja- og einkaleyfarétt.

Emmesís hóf haustið 2006 sölu á nýjum rjómaís undir heitinu TOPPÍS, þó það hafði verið skráð sem vörumerki í eigu Kjörís, því fyrirtækið taldi sig heimilt að nota það því Kjörís hafði ekki framleitt vörur undir heitinu í fimm ár.

Kjörís fór fram á og fékk lögbann á frekari framleiðslu, markaðssetningu og sölu á TOPPÍS, en staðfestingarmál vegna þessa fékk flýtimeðferð sem var síðan afturkölluð því sögð hafa verið veitt fyrir mistök.

Héraðsdómur hafnaði því til að byrja með að TOPPÍS uppfyllti kröfur vörumerkjalaga um skráningarhæfi því samstofna orðið ístoppur væri viðurkennt orð yfir „keilulaga sælgætisís“. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu að fella lögbannið úr gildi, en en eftir stóð ágreiningur aðilanna um viðbótarkröfu Kjörís um staðfestingu á vörumerkinu og Emmesís um að ógilda það.

Hæstiréttur hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að vörumerkið skorti sérkenni og aðgreiningarhæfi og uppfyllti því ekki skilyrði laga um vörumerki og var því hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.

„Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi hefur [Kjörís] samkvæmt gögnum málsins nær eingöngu notað orðið toppís á vörur sínar með orðinu „Lúxus“ og þá ýmist í samsetningunni „Lúxus toppís“ eða „Lúxus íspinni“ en í síðara tilvikinu er um að ræða ís með annarri lögun sem festur er á lítið tréprik eða plastskaft. Af þessu verður ráðið eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi að áhersla [Kjörís] í þessum samsetningum sé á orðinu „lúxus“ en notkun orðanna toppís og íspinni þjóni þeim tilgangi að lýsa mismunandi tegundum af framleiðsluvörum [fyrirtækisins]. Verður því ekki fundinn staður í gögnum málsins að [Kjörís] hafi í reynd notað orðið toppís með skýrum hætti til að greina vörur sínar frá vörum annarra framleiðenda. Gat [fyrirtækið] því ekki með notkun sinni helgað sér þá almennu lýsingu sem í orðinu felst þannig að takmarkað væri svigrúm annarra til þess að gera grein fyrir vöru sinni með notkun þess. Öðlaðist vörumerki [Kjörís] því ekki sérkenni við notkun hans þannig að einkaréttur gæti skapast í krafti notkunar,,“ segir í niðurstöðukafla dóms Hæstaréttar .