Landssamtökin eru hagsmunasamtök lífeyrissjóða og hafa þau innan vébanda sinna 25 lífeyrissjóði sem í voru um 250 þúsund greiðandi sjóðfélagar í lok árs 2016. Allir lífeyrissjóðir landsins eru aðilar að samtökunum, en eignir þeirra í lok síðasta árs voru um 3.533 milljarðar króna.

Þórey S. Þórðardóttir er framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða. Hún hefur mikla reynslu úr íslenska lífeyrissjóðakerfinu og hefur starfað innan þess í rúmlega sextán ár. Þórey er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið LL.M. gráðu í hafrétti frá University of Washington í Bandaríkjunum. Að loknu námi starfaði hún á lögmannsstofu, en fór síðan yfir í lífeyrissjóðakerfið þar sem hún starfaði um árabil sem forstöðumaður réttindamála hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR) og Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga (LH). Hún starfaði sem hæstaréttarlögmaður um nokkurt skeið áður en hún tók við starfi framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða af Hrafni Magnússyni árið 2011.

Leiða vaxtalækkunina

Lífeyrissjóðirnir hafa stóraukið umsvif sín á íbúðalánamarkaði undanfarið. Hefur þessi eignaflokkur gefið vel af sér og sérð þú fram á að hlutdeild þeirra á markaðnum muni aukast?

„Sjóðfélagalánin á húsnæðismarkaði hafa verið mjög góður eignaflokkur fyrir lífeyrissjóðina. Þetta er tryggur og öruggur eignaflokkur. Fjárfestingar í þessum lánum auka gæði eignasafns sjóðanna og bæta þjónustuna við sjóðfélaga. Svo hafa þessar fjárfestingar verið hagkvæmar fyrir sjóðfélaga, þar sem sjóðirnir bjóða hagstæðari lánakjör en bankarnir. Það má því í raun segja að lífeyrissjóðirnir hafi leitt vaxtalækkanir til neytenda í landinu og hefur mikið verið um endurfjármögnun á sjóðfélagalánum upp á síðkastið.

Mér skilst þó að þessi markaðshlutdeild sé að ná jafnvægi. Einnig hafa einhverjir sjóðir verið að lækka veðhlutföllin hjá sér, sem þýðir að þeir eru að draga úr áhættu.“

Eru ekki góðgerðastofnanir

Telur þú æskilegt að lífeyrissjóðirnir taki þátt í þeirri innviðauppbyggingu sem er framundan?

„Ég tel afar líklegt að lífeyrissjóðir komi til með að taka þátt í þeirri innviðauppbyggingu sem er framundan. Lífeyrissjóðir eru kjörnir í slíkar fjárfestingar. Eðli innviðafjárfestinga fellur vel að hagsmunum sjóðfélaga. Innviðir þurfa þolinmótt langtímafjármagn og innviðafjárfestingar hafa langan líftíma. Slíkar fjárfestingar auka einnig áhættudreifingu í eignasöfnum sjóðanna. Lífeyrissjóðakerfið sem heild hefur einnig mikla fjárfestingarþörf, enda er kerfið ekki enn búið að ná hámarki; innstreymi er enn meira en útstreymi.

Það má hins vegar ekki rugla þessum innviðafjárfestingum saman við almennan rekstur. Það er oft talað um að sjóðirnir þurfi að koma að hinu og þessu einfaldlega af því að þeir höndla mikla fjármuni fyrir hönd sinna sjóðfélaga. En þeir eru ekki félagsmálastofnun eða góðgerðastofnun. Þeir eru fyrst og fremst fjárfestar og bera mikla ábyrgð gagnvart sínum sjóðfélögum.“

Nánar er rætt við Þóreyju S. Þórðardóttur í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .