Hæstiréttur Íslands dæmdi Júlíus Vífil Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúa, í dag til hálfs árs fangelsis fyrir peningaþvættisbrot. Refsingin fellur niður haldi hann almennt skilorð í tvö ár. Einn dómari skilaði sératkvæði og taldi brotið fyrnt.

Júlíusi Vífli var gefið að sök að hafa árin 2010-2014 geymt ávinning af skattalagabroti, um 49-57 milljónir króna, á bankareikningi á Jersey og ráðstafað honum síðan árið 2014 inn á reikning vörslusjóðs í Sviss. Áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar var veitt á þeim grunni að dómur í málinu gæti varpað ljósi á afturvirkni refsilaga og áhrif fyrningar þegar brot er viðvarandi.

Júlíus byggði málsvörn sína á að frumbrotið, það er skattalagabrotið, væri órannsakað, ósannað og ódæmt. Var því mótmælt að hann þyrfti að sýna fram á að það væri hans að sýna fram á hvaðan fjármunirnir, alls á bilinu 131-146 milljónir króna, hefðu komið. Fyrir Landsrétti hafði komið fram að um væri að ræða þóknanatekjur og umboðslaun í tengslum við starfsemi Ingvars Helgasonar árin 1982 til 1992.

„Eins og lýst er í hinum áfrýjaða dómi bar ákærði fyrir héraðsdómi að þær innstæður sem voru á umræddum reikningum á hans nafni á tímabilinu 2010 til 2014, og hann síðan ráðstafaði inn á bankareikning sjóðs sem hann var rétthafi að, hafi verið hans hluti af tekjum í formi þóknana og umboðslauna á árunum 1982 til 1992 frá erlendum viðskiptamönnum félags sem hann starfaði hjá. Ákærði hefur viðurkennt að hann hafi verið búsettur hér á landi frá árinu 1982 en ekki talið umræddar tekjur fram til skatts hér á landi. Hann hefur ekki borið því við að hafa greitt skatt af þessum tekjum annars staðar en hér á landi,“ segir í hinum áfrýjaða dómi.

Að mati Hæstaréttar þótti því sannað að ávinningurinn stafaði af refsiverðri háttsemi. Einhver hluti fjárhæðarinnar kynni að vera vegna vaxtatekna og gengishagnaðar en það breytti því ekki að frumbrotið, skattalagabrot, þótti sannað.

Hafði færslan árið 2014 áhrif?

Júlíus byggði einnig á því að svokallað „sjálfsþvætti“, sem undir var í málinu, hefði ekki orðið refsivert fyrr en með lagabreytingu árið 2009, sem tók gildi í ársbyrjun 2009. Það að beita lögunum gagnvart honum fæli því í sér afturvirka refsingu sem væri í andstöðu við Mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þá var einnig byggt á því að hið meinta brot teldist fyrnt þar sem rannsókn hófst ekki á því fyrr en 2016.

Í dómi Hæstaréttar segir að árið 2014 hafi Júlíus fært fjármunina milli reikninga. Fram til ársins 2010 hafi lögin ekki tekið gildi og geymslan fram að því tímamarki því ekki refsiverð. Að mati réttarins réðust úrslit málsins á því hvenær refsiverð háttsemi stóð yfir og hvenær henni lauk. Fyrning frumbrots leiddi ekki til þess sjálfkrafa af sjálfþvættisbrot teldist fyrnt.

„Brot það sem ákærða er gefið að sök varðar allt að sex ára fangelsi og fyrnist því á tíu árum […]. Þar sem sú háttsemi sem lýst er í ákæru og telst refsiverð sem sjálfsþvætti […] stóð enn yfir á árinu 2014 var brotið ófyrnt þegar skýrsla var tekin af ákærða hjá héraðssaksóknara 11. september 2017 vegna rannsóknar á hendur honum sem sakborningi vegna meðal annars brots gegn fyrrnefndu lagaákvæði,“ segir í dóminum. Sakfellingin var því staðfest. Hæfileg refsing var talin hálfs árs skilorðsbundið fangelsi.

Einn dómari af fimm, Ólafur Börkur Þorvaldsson, skilaði sératkvæði. Taldi hann að hvorki lög né lögskýringargögn kvæðu afdráttarlaust á um hvernig skildi fara með fyrningarfrest peningaþvættisbrot en brýnt tilefni hefði verið til þess. Taldi hann rétt að beita þeirri lögskýringu að túlka vafa túlka sakborningi í hag, líkt og meginreglur refsiréttar kveða á um. Af þeim sökum bæri að miða upphafstíma fyrningarfrests við fullframningu brots. Brotið hefði því verið fyrnt þegar rannsókn hófst og því bæri að sýkna.