Þann 16. desember var lokahlaup Spartan-hlaupanna, Ultra World Championship, hlaupið í nágrenni Hveragerðis. Spartan er fyrirtæki sem stendur fyrir um 200 hindrunarhlaupum á ári víðs vegar um heim. Hlaupið stóð í 24 klukkutíma og var hver hringur 6,8 mílur, tæpir 12 kílómetrar. Þeir sem náðu besta tímanum skiptu á milli sín 25.000 dollurum, um 2,5 milljónum króna.

Þátttakendur voru um 650 í Ultra World Championship hlutanum og reyndu þátttakendur að ná eins mörgum hringjum með um 20 hindrunum, náttúrulegum og manngerðum, á þeim tíma. Sá bar sigur úr býtum sem fór flesta hringi og hélt út í heilan sólarhring. Að auki var boðið upp á möguleikann að keppa sem lið og einnig svokallað Sprint sem var þá eingöngu einn hringur en tæplega 200 keppendur tóku þátt í því, þeirra á meðal Katrín Tanja Davíðsdóttir, sem varð í þriðja sæti í Sprintinu. Allt í allt tóku því 800 keppendur frá 35 löndum þátt.

„Þetta var mjög skemmtilegt,“ segir Erla B. Ágústsdóttir, sem stýrir hluta af MICE-deild hjá Iceland Travel, sem hélt utan um hlaupið. „Þetta er líka aðeins á mínu áhugasviði sem gamall boot-campari og ég var því fljót að segja já þegar beiðnin kom til okkar. Við unnum þetta mjög náið með Frey Hákonarsyni hjá ICON. Hann hefur hlaupið Spartan-hlaup erlendis,“ segir Erla. Hún segir að fólk kunni að hafa ýmsar ástæður fyrir því að vilja taka þátt í þeirri þrekraun sem Spartan-hlaupið er. „Þetta fólk er allt í mjög góðu formi og vill ögra sér og að geta ferðast í kringum þetta. Fólk sem kemur til að taka þátt í þessu á Íslandi er hér líka til að upplifa og sjá Ísland en ekki bara fyrir líkamlegu áskorunina,“ segir Erla. Eins og áður segir stýrir Erla hluta af svokallaðri MICE-deild innan Iceland Travel, en MICE stendur fyrir „meetings, incentives, confrencing og events“ – sem mætti þýða sem fundir, hvata(ferðir), ráðstefnur og viðburðir.

„Það sem við gerum dagsdaglega er að halda fundi fyrir erlenda gesti, ráðstefnur hér á landi, innlendar og erlendar, og svo þessar hvataferðir, sem eru nokkurs konar hópeflisferðir erlendra fyrirtækja sem koma hingað í þrjá til fjóra daga í verð- launaferðir fyrir starfsfólkið sitt. Þetta eru ferðir sem er yfirleitt barist um innan fyrirtækjanna að komast í. Þá er líka gert mjög vel við fólk, það er farið upp á jökla og matur og veislur og fleira,“ segir Erla. „E-ið stendur fyrir events eða viðburði og það er þar sem Spartan-hlaupið kemur til okkar.“

Gátu varla staðið í rokinu

Hlaupið var að sögn Erlu mjög vel heppnað. „Þau fengu akkúrat öll þessi veður sem við bjóðum upp á á veturna, allar tegundir af roki og rigningu og logni og snjó og meira að segja norðurljós sem glöddu mjög,“ segir Erla. Þrátt fyrir miklar þrekraunir slösuðust nánast engir í hlaupinu. „Það var einn sem meiddist á ökkla, enda mjög miklar og erfiðar leiðir. Við vorum með allan viðbúnað, til dæmis voru sjúkrabílar á okkar vegum á staðnum til að bregðast við ef eitthvað hefði komið upp á.“ Hlaupið var lengi í undirbúningi því beiðni um að halda það kom síðasta vor í gegnum Meet in Reykjavík. „Þau komu svo til okkar og báðu okkur um að taka það að okkur.“

Keppendurnir í hlaupinu voru ekki starfsmenn tiltekins fyrirtækis heldur einungis ofurhugar sem keyptu sig inn í hlaupið. „Við sáum svo um allt sem við kom Íslandi,“ en hlaupið er haldið á vegum Spartan fyrirtækisins. Þessi hlið ferðamennsku er að sögn Erlu nýleg hér á landi og býður upp á mikil vaxtartækifæri. „Þetta mun örugglega þróast og stækka. Það er líka gaman að fá ekki bara hefðbundna ferðamenn til landsins. Auðvitað hafa verið haldin hlaup á Íslandi áður, en þá á vegum Íslendinga þar sem erlendir keppendur skrá sig. Þetta er í rauninni erlendur viðburður, haldinn á Íslandi og reyndar um allan heim. En hlaupið á Íslandi var það síðasta á árinu þannig að við vorum svolítið stolt af því að halda það hérna,“ segir Erla, en skipuleggjendur hlaupsins eru að skoða hvort það verði haldið aftur á Íslandi. „Það kemur væntanlega í ljós á vormánuðum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .