KPMG vinnur nú að því að kynna fyrir íslenskum fyrirtækjum, vettvang á alþjóðavísu sem kemur fjártæknifyrirtækjum saman við hefðbundnari fjármálafyrirtæki. Um er að ræða dótturfélag KPMG International sem gengur undir nafninu Matchi en segja má að um eins konar stefnumótaþjónustu sé að ræða fyrir banka og tæknifrumkvöðla á þessu sviði.

Stefán Þór Helgason, ráðgjafi hjá KPMG, segir að verkefnið sé á fyrstu stigunum á Íslandi. „Við erum að fara af stað með þetta núna. Við höfum verið að vinna með Danske bank og öðrum bönkum í Evrópu en erum bara núna að kynna þetta hér heima. Hin hliðin á þessu er að þetta er frábært tækifæri fyrir fjártæknifyrirtæki hér heima að skrá sig til þess að geta boðið sína þjónustu til erlendra banka,“ segir hann og bætir við: „Það er náttúrulega alltaf þetta, að Íslendingar eru rosalega góðir að búa til lausnir og koma sér af stað en þegar kemur að selja vörurnar út á erlenda markaði hefur vantað upp á. Ég held að þetta sé alveg gullið tækifæri til þess að ýta undir það.“

Þá segir Stefán Þór að ef bankar bregðist ekki skjótt við og nýti sér þá þekkingu og lausnir sem eru að skapast í fjártæknifyrirtækjum, geti þeir orðið undir í samkeppninni.

„Bara núna um daginn ætlaði ég að taka þátt í gjöf til félaga míns í Noregi og þurfti þess vegna að millifæra einhverjar 10.000 krónur. Það var meiriháttar mál, ég þurfti að stofna erlend viðskipti í heimabankanum milli níu og fimm svo þurfti ég að fá IBAN og SWIFT númer og svo tekur það þrjá daga að komast á milli. Ég reyndi að gera þetta og var búinn að fara í gegnum ferlið en þá kom einhver villa upp, svo að á endanum ákvað ég að millifæra með PayPal. Það tók eina mínutu.

Þetta er eitthvað sem yngri kynslóðirnar munu ekki sætta sig við. Að þurfa að fara í gegnum alls konar vesen á milli níu og fimm og bíða svo í þrjá daga,“ segir Stefán Þór og bætir við að bankar þurfi að sýna frumkvæði í að innleiða nýjar lausnir.

3.000 fjártæknifélög á einum stað

„Við erum með 3.000 fjártæknifélög sem við erum í tengingu við. Af þeim er búið að áreiðanleikavotta um 700 félög. Þannig að íslenskir bankar, eða fjarskiptafyrirtæki eða hver sem er á þessu sviði, getur tengt sig í gegnum okkur við Matchi sem að hjálpar við að finna nýjar lausnir,“ segir Stefán Þór.

Hann segir ferlið á bak við áreiðanleikavottun vera umfangsmikið en að öllum fjártæknifyrirtækjum bjóðist upp á að fara í slíkt ferli. „Þetta er býsna umfangsmikið ferli. Matchi tekur viðtal við forsvarsmenn fyrirtækjanna og fá að skoða lausnirnar. Nú eru komnar um 700 áreiðanleikaprófaðar lausnir. Þeir sem eru að vinna í þessu eru farnir að þekkja markaðinn mjög vel og geta áttað sig mjög fljótt á því ef einhver brögð eru í tafli. Þess vegna kemstu ekkert voðalega langt í ferlinu ef þú ert ekki með allt á hreinu,“ segir hann