Hillary Clinton bar sigurorð af Trump í kappræðum gærkvöldsins samkvæmt skoðanakönnun CNN á þeim sem horfðu á kappræðurnar. Samkvæmt niðurstöðum hennar sögðu 62% þeirra kjósenda sem horfðu á kappræðurnar að Hillary Clinton hefði unnið meðan einungis 27% sögðu að Donald Trump hefði átt betra kvöld.

Niðurstöðurnar eru svipaðar og sigur Mitt Romney yfir Barack Obama í fyrstu kappræðum þeirra árið 2012.

Hún sögð koma málstaðnum skýrar frá sér

Áhorfendur sögðu að Hillary hefði komið sínum málstað betur og skýrar frá sér heldur en Trump og hefði betri skilning á málefnunum, og voru þeir sem voru á þeirri skoðun tvöfallt fleiri en þeir sem sögðu að Trump hefði verið skýrari.

Jafnframt voru 53% þeirra á því að Hillary hefði betur svarað áhyggjum kjósenda um mögulega forsetatíð sína, en 35% sögðu Trump hefði gert það. Jafnramt sögðu 56% að hún væri sterkari leiðtogi meðan 39% sögðu Trump vera sterkari.

Minni munur á trúverðugleika

Ef spurt var hvor þeirra virtist trúverðugari þá var bilið minna, en Clinton hélt enn forystunni með 53% sem sögðu hana trúverðugari og innilegri, en 40% sögðu Trump hafa gert betur í því. Trump hafði hins vegar meirihlutann, eða 56% miðað við 33% hjá Hillary í könnun á því hvor hefði eytt meiri tíma í að ráðast á hinn.

Skoðanakönnunin sýndi þó einnig að þeir sem horfðu á voru líklegri til að vera Demókratar, en jafnvel meðal þeirra sem lýstu sér sem hlutlausum þá sögðu 54% þeirra að Clinton hefði staðið sig betur, en 33% þeirra að Trump hefði staðið sig betur.

Þegar áhorfendur voru spurðir fyrir kappræðurnar hvorn þeir teldu vera sigurvegarann þá var bilið milli þeirra 26 prósentustig, en eftirá hafði bilið aukist í 33 prósentustig.