Nemendum á háskólastigi fjölgaði um 2,4% árið 2018 frá árinu á undan. Fjölgunin var eingögnu meðla kvenna sem fjölgaði um 4,4%. Hins vegar fækkaði körlum í hákskólanámi um tæpt eitt prósent. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands sem birtar voru í dag.

Skólasókn kvenna var meiri en karla í öllum árgöngum 16–29 ára að 19 ára nemendum undanskildum. Ef eingöngu er litið á nemendur á framhaldsskólastigi voru karlar hlutfallslega fleiri en konur frá 19 ára aldri, sem gefur vísbendingu um að á þeim aldri séu margar konur búnar að ljúka framhaldsskóla en karlarnir ekki. Undanfarin ár hefur 20 ára verið yngsti árgangurinn þar sem karlar voru fleiri en konur í námi á framhaldskólastigi en árið 2018 hafði það færst niður í 19 ára árganginn.

Á háskóla- og doktorsstigi voru konur fleiri en karlar á öllum námssviðum nema á sviði raunvísinda, stærðfræði og tölvunarfræði sem og í verkfræði, framleiðslu og mannvirkjagerð. Hlutfallslega voru konur flestar á sviði heilbrigðis og velferðar en þar voru þær 84,7% nemenda og 81,1% nemenda á sviði menntunar. Á sviði raunvísinda, stærðfræði og tölvunarfræði voru konur hlutfallslega fæstar eða 38,1% nemenda og 39,6% á sviði verkfræði, framleiðslu og mannvirkjagerðar.

Nemendum á skólastigum ofar grunnskóla voru tæplega 41 þúsund haustið 2018 sem er um 600 færri en árið áður. Þannig þrátt fyrir fjölgun nemenda á háskólastigi var um fækkun að ræða á framhaldsskólastigi, viðbótarstigi og doktorsstigi.

Nemendum á doktorsstigi fækkaði um 60 frá hausti 2017 (-9,4%) og voru 577 talsins haustið 2018.Rúmlega þrír af hverjum tíu nemendum á framhaldsskólastigi voru í starfsnámi haustið 2018 sem er svipaður fjöldi og árið áður en 69,3% nemenda stunduðu nám á bóknámsbrautum. Hlutfall nema í starfsnámi haustið 2018 var mun hærra meðal karla en kvenna, eða 39,3% á móti 21,5% hjá konum og jókst bilið á milli kynjanna frá 2017 til 2018.

Langflestir háskóla- og doktorsnemar sóttu nám á sviði félagsvísinda, viðskipta og lögfræði haustið 2018, eða 6.332 nemendur. Næstflestir nemendur voru á sviði heilbrigðis og velferðar, 2.717. Þar á eftir koma menntun (2.427); hugvísindi og listir (2.273) og raunvísindi, stærðfræði og tölvunarfræði (2.042). Hlutfallsleg fjölgun háskólanema frá 2017 til 2018 varð öll á sviði menntunar og fjölgaði úr 12,4% árið 2017 í 13,2% 2018.