Hlutfall kvenna sem starfa við fjárfestingar hjá Íslandssjóðum hefur hækkað í 45% úr 10% frá árinu 2016 þegar Íslandssjóðir settu sér markmið um að fjölga konum konum sem stýra fjármunum, bera ábyrgð á fjárfestingum og áhættu sem tengist þeim og taka ákvarðanir um ráðstöfun peninga í daglegum störfum sínum sem sjóðsstjórar, safnastjórar og stjórnendur fjárfestingarfélaga. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri samfélagsskýrslu Íslandsbanka en Íslandssjóðir eru dótturfélag Íslandsbanka.

„Ég er algjörlega sannfærður um að jafnvægi í kynjahlutfalli er nauðsynlegur liður í að hámarka árangur og ánægju á vinnustaðnum. Kvennavinnustaðir og karlavinnustaðir eru einfaldlega of einsleitir. Að hafa jöfn hlutföll öflugra karla og kvenna kallar fram betri hliðar hjá flestum, sem hefur skýr áhrif á starfsánægju, árangur sem fólk nær í starfi og hollustu gagnvart vinnustaðnum. Við settum okkur því markmið um að vinna markvisst að því að bæta þetta hlutfall. Starfsánægja hjá Íslandssjóðum er mæld reglulega og það er gaman að sjá hana mælast í sögulegu hágildi nú þegar kynjahlutföll í félaginu eru um 50/50 í fyrsta skipti í áraraðir,“ er haft eftir Kjartani Smára Höskuldssyni, framkvæmdastjóra Íslandssjóða í tilkynningu.

Starfsmenn Íslandsbanka eru um 900 talsins og eru 65% konur og 35% karlar. Kynjahlutfall í framkvæmdastjórn er 57% konur og 43% karlar að bankastjóra meðtöldum. Stjórnendur eru 50% konur og 50% karlar og í stjórn bankans eru 57% konur og 43% karlar. Jafnrétti er eitt af verkefnum samfélagsábyrgðar bankans, Heildunar, og hefur mikill árangur náðst í að auka kynjafnvægi í störfum bankans. Bankinn hefur hlotið Hvatningarverðlaun jafnréttismála og er með Gullmerki jafnlaunaúttektar PwC.