Heildarvelta innlendra greiðslukorta nam 89,7 milljörðum króna í nóvember og jókst um 2,9% frá sama mánuði í fyrra en dróst saman um 2,7% frá fyrri mánuði. Þetta kemur fram í tölum sem Seðlabankinn birti í morgun. Velta debetkorta nam 43,6 milljörðum og jókst um 2,6% milli ára á meðan velta kreditkorta nam 46,1 milljarði og jókst um 3,2% milli ára.

Heildarvelta erlendra greiðslukorta á Íslandi nam 14,6 milljörðum í nóvember og dróst saman um 6,8% milli ára. Það sem af er ári nemur velta erlendra greiðslukorta 224,5 milljörðum króna og hefur dregist saman um 7,5% frá sama tímabili í fyrra.

Heildarvelta innlendra greiðslukorta á síðustu 12 mánuðum nam 1.071,4 milljörðum króna og jókst um 4,4% frá sama tímabili fyrir ári síðan. Heildarvelta erlendra greiðslukorta nemur 239 milljörðum á síðustu 12 mánuðum og hefur lækkað um 7,1% frá sama tímabili fyrir ári síðan.