Í umfjöllun breska fjölmiðilsins Guardian um sérstakan kosningahnapp Facebook, þar sem samfélagsmiðillinn gerði tilraun með að virkja fólk á ýmsan hátt til að taka þátt í atkvæðagreiðslum víða um heim, er byrjað á því að segja frá íslenska lögfræðingnum Heiðdísi Lilju Magnúsdóttir.

Er þar sagt frá því að hún fór að spyrjast fyrir um hvort fleiri en hún sjálf sáu skilaboð að morgni kjördags hér, 28. október síðastliðinn, um að það væri kjördagur. Komst hún að því að ekki allir af hennar vinum og ættingjum höfðu fengið slíka áminningu, og sumir fengu hana í öðru formi.

Í greininni er svo rætt við Elfu Ýr Gylfadóttur framkvæmdastjóra Fjölmiðlanefndar en stjórnvöld hér á landi höfðu enga hugmynd um þessa tilkynningu Facebook sem var meðal þess sem rætt var um í nýlegum yfirheyrslum þingnefndar í Bandaríkjunum yfir Mark Zuckerberg forstjóra facebook.

Kosningabaráttan sögð sú hatrammasta í Íslandssögunni

Í grein Guardian er sagt að síðasta kosningabarátta hafi verið sú hatrammasta í sögu landsins, með myndböndum í dreifingu sem oft hafi fleiri milljón manns séð þrátt fyrir að þjóðin sé fámennari en það. Í umfjöllunina er svo bætt við sögu hnappsins og hvernig áhrif Facebook á kosningar og aðra umfjöllun hefur verið í umræðunni nýlega og yfir lengri tíma.

Einnig er rætt við Elizabeth Linder sem lengi stýrði þeim hluta starfsemi Facebook sem kom að samskiptum og tengslum við stjórnmál, en hún kom hnappnum í notkun utan Bandaríkjanna. Svo er rætt við Janne Elvelid, fulltrúa fyrirtækisins í Stokkhólmi sem kom og kynnti möguleika facebook fyrir stjórnvöldum hér á landi í aðdraganda kosninganna og almenna umræðu hér á landi um áhrif facebook.

Í greininni er loks fjallað um hve áhrifaríkur hnappurinn hefur verið í að auka kosningaþátttöku, og virðist hann slá öll met annarra aðferða sem hafa verið reynd. Það er með því að auka þátttöku til að mynda um 0,24% í forsetakosningunum 2012.