Heildartjón íbúðalánasjóðs af því að fella niður uppgreiðslugjald á lánum gæti numið allt að 28-33 milljörðum yrðu öll slík lán greidd upp á einu ári. Um 8 milljarða beinn kostnaður fellur þar til auk 20-25 milljarða óbeins kostnaðar.

Þetta kemur fram í svari félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni, þingmanni Miðflokksins.

Í svarinu kemur einnig fram að samtals eru 7.142 lán sem eru útistandandi hjá Íbúðalánasjóði og bera uppgreiðslugjald. Flest þeirra voru tekin á árunum 2006-2008 eða um 2/3 af öllum útistandandi lánum með uppgreiðslugjald. Þá kemur einnig fram að meðalaldur lántakenda í dag sé um 49 ár.

Þá er ráðherra einnig spurður um afstöðu sína gagnvart því að fella niður uppgreiðslugjaldið af lánum Íbúðalánasjóðs. „Ráðherra hefur ekki tekið til skoðunar hvort afnema eigi uppgreiðslugjöld af veittum lánum Íbúðalánasjóðs. Vandséð er með hvaða hætti það yrði gert í ljósi þess að hér er um að ræða skilmála lánasamninga sem lántakendur undirgengust gegn því að lán þeirra bæru lægri vexti en lán sem ekki bera uppgreiðslugjöld. Með því að afnema uppgreiðslugjöld af þegar veittum lánum væri því ekki jafnræði milli þeirra lántakenda sem tóku lán á sama tíma en með ólíkum skilmálum og vaxtastigi.

Þá er ljóst að einn af stærstu áhættuþáttum í rekstri Íbúðalánasjóðs eru uppgreiðslur lána og með því að afnema uppgreiðslugjöldin myndi sú áhætta aukast og líklega yrði ríkissjóður að leggja sjóðnum til viðbótarfjármagn. Væru uppgreiðslugjöld afnumin þyrfti því ríkissjóður að bæta sjóðnum þann tekjumissi sem hann yrði fyrir vegna þess,“ segir í svarinu.