Endalok viðskiptaveldis Philip Green kann að kosta breska skattgreiðendur um 200 milljónir punda, jafnvirði um 35 milljarða íslenskra króna vegna ófjármagnaðra lífeyrisskuldbindinga samstæðunnar.

Ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar Arcadia námu um 300 milljónum punda þegar félagið fór í greiðslustöðvun í nóvember. Hve há skuldin verður veltur á lokum á hve vel gengur að selja einstök dótturfélög samstæðunnar. Hingað til hafa netverslanir helst verið áhugasamar um dótturfélögin, sem hyggjast loka mörg hundruð verslunum og segja upp starfsfólki þeirra. Netverslunin Asos keypti í gær Topshop, Miss Selfridge og fleiri vörumerki af Arcadia fyrir um 300 milljónir punda. Þá keypti netverslunin Boohoo Debenhams í síðustu viku fyrir 55 milljónir punda.

The Times hefur eftir John Ralfe, sem sérhæfir sig í sambærilegum málum að hann áætli að skuldin verði um 200 milljónir punda.

Til stóð að svipta Green aðalstign árið 2016 vegna lífeyrisskuldar British Home Stores, sem fóru í þrot en, en Green greiddi að lokum 363 milljónir punda upp í skuldina.

Á árinu 2019 er Green sagður hafa lofað að brúa 385 milljónum punda gat í lífeyrisskuldbindingum Arcadia. Þar af var Tina Green, eiginkona Philip Green,sem var endanlegur eigandi Arcadia sögð ætla að leggja sjálf fram 100 milljónir punda. Talið er að hún hafi lokið við að greiða þá fjárhæð í desember en óljóst er með hvort borgað verði inn á afgang skuldarinnar.

Þá kann breska ríkið að þurfa að greiða um 50 milljónir punda vegna launa á uppsagnarfresti.

Baugur nærri því að eiganst Arcadia

Nokkuð er fjallað um aðkomu Baugs og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar að Arcadia í Málsvörn, nýrri bók Einars Kárasonar um Jón Ásgeir eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í síðustu viku . Baugur var komið með 20% hlut í Arcadia árið 2002 og hugðist taka félagið yfir með Philip Green þegar húsleit var gerð hjá Baugi á Íslandi. Því héldu erlendir aðilar að sér höndum, og Baugur missti af tækifærinu en Green keypti félagið og varð í kjölfarið einn ríkasti maður Bretlands.