Sölukostnaður við sölu á eignarhlutum í Íslandsbanka var nokkuð hærri en í einkavæðingarferli íslenska ríkisins í byrjun aldar.

Beinn kostnaður vegna frumútboðsins á Íslandsbanka síðasta sumar nam samtals 1.704 milljörðum króna eða um eða 3,1% af 55,3 milljarða króna söluandvirði samkvæmt greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra sem birtist í febrúar. Þá var kostnaður við útboðið í síðasta mánuði 1,4% af 52,7 milljarða söluandvirði eða rúmlega 740 milljónir króna.

Í skýrslum Ríkisendurskoðunar frá desember 2003 og Framkvæmdanefndar um einkavæðingu frá október 2005 er tekinn saman beinn sölukostnaður vegna sölu ríkisins á eignarhlutum í félögunum fjórum.

Sölukostnaður er aðallega kostnaður vegna ráðgjafa en kostnaður vegna Einkavæðingarnefndar og Bankasýslu ríkisins er undanskilinn í kostnaðnum, sem og annar hugsanlegur kostnaður ráðuneyta.

Erlendir ráðgjafar komu að sölum á öllum félögunum fimm að einhverju marki. Lundúnaskrifstofa alþjóðlega endurskoðunarfélagsins Arthur Andersen vann verðmat á Fjárfestingabanka atvinnulífsins. Breski HSBC bankinn var ráðgjafi við söluna á Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Ráðgjafi við söluna á Landssíma Íslands var Morgan Stanley.