Íslenska ríkið var í Héraðsdómi Reykjavíkur sýknað af bótakröfu Guðjóns Skarphéðinssonar, krafan hljóðai upp rúmlega 1.155 milljóna króna, vegna ólögmætrar frelsissviptingar í tengslum við Guðmundar- og Geirfinnsmálin. Héraðsdómur taldi kröfu Guðjóns fyrnda.

Sem kunnugt er var Guðjón einn fimm dómþola í málunum tveimur en hann var sýknaður af háttsemi sinni við endurupptöku málanna árið 2018. Guðjón hefur þegar fengið 145 milljónir króna greiddar í sanngirnisbætur frá ríkinu í kjölfar sérstakrar lagasetningar um efnið og komu þær til lækkunar dómkröfunni en hún nam upphaflega 1,3 milljörðum króna.

Umrædd atvik áttu sér stað í tíð eldri fyrningarlaga en samkvæmt þeim var fyrningarfrestur kröfunnar tíu ár. Telur dómurinn að fresturinn hafi verið löngu liðinn og að dómur Hæstaréttar í málinu árið 2018 breyti engu þar um.

Þá er í löngu máli vikið að því hvernig Guðjón hafi einnig stuðlað sjálfur að þeim aðgerðum sem hann sætti og það svipti hann einnig bótarétti.

Í málsástæðukafla Guðjóns var einnig vikið að því að þeir sem að rannsókninni hafi komið hafi gerst sekir um refsiverða háttsemi. Sú fullyring fór illa ofan í dóminn.

„Þessi málsástæða stefnanda er með öllu haldlaus og telur dómurinn þennan málflutning lögmanns stefnanda aðfinnsluverðan, þar sem vegið er að æru opinberra starfsmanna, lifandi sem látinna, og þeir sakaðir um refsiverða háttsemi í störfum sínum,“ segir í niðurstöðukafla dómsins.

Guðjón naut gjafsóknar í málinu og við ákvörðun málskostnaðar, 1,5 milljónir króna, var litið til þess að lögmaður Guðjóns, Ragnar Aðalsteinsson, „gjörþekkir málið og ætti það að kalla á minna vinnuframlag af hans hálfu í þessu máli.“

Ragnar staðfestir í viðtali við Fréttablaðið að dóminum verði áfrýjað til Landsréttar.